31. desember, 2023

Annáll SHÍ 2023

Þegar nýtt ár nálgast óðfluga er bæði hollt og gott að líta yfir farinn veg. Árið 2023 hefur verið viðburðaríkt hjá Stúdentaráði og margt gengið á. Hins vegar fara kosningar til stúdentaráðs fram á vorin, því er í raun aðeins hálft árið búið, í tímatali Stúdentaráðs. Í lok hvers starfsárs er unnin ársskýrsla sem er eiginleg samantekt starfsársins, en hér verður stiklað á stóru í atburðum þessa almanaksárs.

Fjármögnun háskólans

Umræðan var þung í upphafi árs en þann 29. janúar lýsti Stúdentaráð yfir áhyggjum af slæmri fjárhagsstöðu Háskóla Íslands þegar ljóst varð að háskólann vantaði milljarð til að ná endum saman. Vöntun á fjármagni hefur slæm áhrif á grunnstarfsemi skólans og niðurskurður kemur alltaf til með að bitna á nemendum. Á árinu hefur þó farið fram heilmikil vinna er varðar fjármögnun háskólanna, en ráðuneytið kynnti nýtt reiknilíkan um miðjan september. Stúdentar, sem og háskólinn, binda miklar vonir við að nýtt reiknilíkan auki gagnsæi í fjárveitingu. Stúdentaráð skrifaði umsögn um nýjar reglur um fjárframlög til háskólanna þar sem ábendingum stúdenta var komið áleiðis. Spennandi er að sjá hvernig nýtt reiknilíkan reynist á komandi ári, en verður það keyrt meðfram eldra líkani fyrst um sinn og gefst þá tækifæri til að bregðast við óvæntum þáttum. 

Það verður þó að gæta þess að líkanið hvetji ekki til aukinnar til aðgangsstýringar. Getur það dregið verulega úr jöfnu aðgengi að háskólanámi, sérstaklega fyrir jaðarsetta hópa. Jafnara aðgengi að gæðagóðri opinberri menntun er einmitt sá þáttur sem ætti að vera meginmarkmið stjórnvalda með innleiðingu nýs líkans.

Menntasjóður námsmanna

Umfjöllun um Menntasjóð námsmanna hefur verið hávær á árinu sem er að líða. Í lok janúar var stefna Stúdentaráðs vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna gefin út. Helstu áhersluatriði stefnunnar snúa að því hlutverki sjóðsins að vera félagslegur jöfnunarsjóður, hann ætti að tryggja jafnt aðgengi að námi. Stúdentaráð lagði áherslu á að við endurskoðunina yrði kerfið í heild sinni tekið til ítarlegrar skoðunar þar sem stúdentar búa enn við ófullnægjandi stuðningskerfi. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um Menntasjóðinn átti að kynna niðurstöður endurskoðunar á þeim á haustþingi 2023. Stúdentaráð hvatti ráðuneytið til samráðs við stúdenta við  endurskoðunina og fengu fulltrúar stúdentahreyfinganna boð á vinnustofu á vegum ráðuneytisins. Stuttu fyrir þinglok haustþings var skýrsla um mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna gefin út. Lagabreytingafrumvarps er að vænta á vorþingi og verður spennandi að fylgjast með því. Stúdentaráð vonast auðvitað eftir að tekið verið mark á ábendingum stúdenta við þær breytingar. 

Í febrúar voru ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum kosnir. á fulltrúaráðsfundi LUF. Báðar tilnefningar SHÍ hlutu kjör en Rebekka Karlsdóttir mun sinna starfi ungmennafulltrúa á sviði sjálfbærrar þróunar og Isabel Alejandra Díaz á sviði mennta, vísinda og menningar.

Sjúkra og endurtektarpróf

Í byrjun mars bárust þau gleðitíðindi að sjúkra- og endurtektarpróf haustannar verða ekki lengur haldin í maí. Eftir þrotlausa baráttu Stúdentaráðs og fulltrúa stúdenta í Háskólaráði hefur heimild til að halda sjúkra- og endurtektarpróf haustannar í maí verið felld úr gildi og í staðinn munu þau fara fram í desember og janúar ár hvert.

Stúdentar splæsa

Þann 16. mars var herferð Stúdentaráðs 2023, Stúdentar splæsa, hleypt af stokkunum. Herferðin fjallaði um þá staðreynd að opinberir háskólar á Íslandi eru undirfjármagnaðir og leita þeir því í vasa stúdenta til að fjármagna sig. Var í herferðinni varpað ljósi á þá þætti sem liggja að baki gjaldsins og að Stúdentaráð drægi lögmæti þeirra í efa.  Einnig var vakin athygli á að íslenskir stúdentar greiði mun hærri skrásetningargjöld en nágrannar okkar á Norðurlöndunum og að þrátt fyrir allt ofantalið hafi íslenskir háskólar hafa ítrekað óskað eftir hækkun skrásetningargjaldanna. Allt er þetta til komið vegna undirfjármögnunar háskólans um árabil. 

Herferðin var að mestu keyrð á samfélagsmiðlum en einnig birtust auglýsingar á strætóskýlum borgarinnar. Í kjölfar herferðarinnar gengu fulltrúar stúdentaráðs fylktu liði að Ráðherrabústaðnum þar sem ríkisstjórnarfundur fór fram og afhentu forsætis-, fjármála- og háskólamálaráðherrum kröfur stúdenta.

     Hluti af herferð Stúdentaráðs 2023

 

Fjárhagsstaða stúdenta

Stúdentaráð lagði könnun fyrir stúdenta á vorönn, þar sem spurt var út í fjárhagsstöðu stúdenta. Niðurstöður könnunarinnar leiða m.a. í ljós að 70% svarenda vinna með námi, þar af sagðist rúmur helmingur hætta að vinna með námi ef námslánin væru hærri. 

Íþróttaskólinn

Krúttlegasta verkefni SHÍ, Íþróttaskólinn, var starfræktur á bæði vor- og haustönn 2023 og var aðsóknin mikil. Tímarnir í íþróttaskólanum eru haldnir í íþróttahúsi HÍ og hafa vakið mikla lukku meðal barna stúdenta.

Kosningar

Kosningar til Stúdentaráðs fóru fram dagana 22. og 23. mars. Jók Vaka við sig fylgi frá árinu áður, úr 2 fulltrúum í 5 og hlutu 12 fulltrúar Röskvu kjör. Á kjörfundi í apríl var kosið í stöður forseta, varaforseta, hagsmunafulltrúa og lánasjóðsfulltrúa á skrifstofu SHÍ og tóku þau við skrifstofunni þann 1. júní. Á skiptafundi Stúdentaráðs í maí tók svo nýkjörið Stúdentaráð við keflinu.

Nýkjörnir fulltrúar á skrifstofu Stúdentaráðs

Landsþing LÍS

Landsþing LÍS, Landssamtaka íslenskra stúdenta, fór fram á Akureyri dagana 29. mars – 1. apríl. Þangað mættu 13 fulltrúar Stúdentaráðs og þinguðu með fulltrúum hinna háskólanna. Megináhersla þingsins var staða foreldra í háskólanámi og voru niðurstöður könnunar  SHÍ um stöðu foreldra í námi kynntar á þinginu, en könnunin var lögð fyrir stúdenta við HÍ vorið 2022.

Fulltrúar SHÍ á Landsþingi LÍS

Matarspor

Í byrjun maí varð tillaga Stúdentaráðs að veruleika þegar Matarspor var sett upp í Hámu á Háskólatorgi. Með Matarspori er neytendum gert kleift að taka upplýsta ákvörðun um hvaða rétta skal velja því kolefnisspor hverrar máltíðar er reiknað út. Við fögnum þessu litla skrefi og vonumst til að fljótlega verði upplýsingarnar einnig aðgengilegar á Uglu svo öll á háskólasvæðinu geti séð. 

Byggð í Nýja Skerjafirði?

Þann 9. maí sendi Stúdentaráðs frá sér ályktun vegna byggðar í Nýja Skerjafirði þar sem harmar frekari tafir á uppbygging á svæðinu.

Sumar á skrifstofu Stúdentaráðs

Á sumrin er unnið hörðum höndum að undirbúningi næsta skólaárs. Haldnir voru tveir Stúdentaráðsfundir yfir sumarið, í júní og ágúst en í byrjun júlí var Stefnumótunarferð Stúdentaráðs haldin í Hinu Húsinu í Elliðaárdal. Þar komu saman öll þau sem á einn eða annan hátt starfa með Stúdentaráði og mótuðu sér stefnu fyrir næsta starfsár, kynntust betur og fræddust um stóru málin. 

Stúdentar gengu með Q – félagi hinsegin stúdenta í Gleðigöngunni þann 12. ágúst á besta degi sumarsins í Reykjavík.

Fulltrúar stúdenta í Gleðigöngunni

Októberfest

Í byrjun ágúst var Skarphéðinn Finnbogason ráðinn samskiptafulltrúi Októberfest og fór undirbúningur stærstu tónlistarhátíðar stúdenta á Íslandi þá á fullt. Hátíðin fór fram í Vatnsmýrinni dagana 7.-9. september og fór hún að öllu leyti vel fram. Afar fjölmennt var á hátíðinni, enda seldist upp, og skemmtu gestir og skipuleggjendur sér öll konunglega!

Frá tónleikum Emmsjé Gauta á Októberfest

Undir lok september bárust þær gleðifregnir að enn og aftur hefði hagsmunabarátta stúdenta borið árangur – staðfest var að skrásetningargjöldin yrðu ekki hækkuð að sinni! Í desember 2022 höfðu rektorar opinberu háskólanna óskað eftir því við stjórnvöld að heimild yrði veitt til að hækka skrásetningargjöld úr 75.000 kr í 95.000 kr. en sem betur fer gekk það ekki eftir. 

Í lok október var samstarf SHÍ og Krónunnar kynnt til sögunnar. Nú geta íbúar stúdentagarða í Vatnsmýri fengið heimsendingu á mun betri kjörum en áður. 

Skrásetningargjaldið

Stúdentaráð boðaði til blaðamannafundar í Grósku þann 27. október. Til umræðu var ólögmæti skrásetningargjalda við Háskóla Íslands og fjármögnun opinberra háskóla. Samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema frá 5. október sl. hefur Háskóli Íslands byggt á ófullnægjandi forsendum við ákvörðun fjárhæðar skrásetningargjaldsins. Nánar má lesa um skrásetningargjaldamálið og aðdraganda þess hér

VOFF dagar

Í nóvember voru fyrstu VOFFdagarnir haldnir á Litla torgi en VOFF stendur fyrir Vellíðan og fleira flott. Dagarnir voru samstarfsverkefni SHÍ og Sálfræðingateymis Háskóla Íslands. Almenn vellíðan stúdenta var í brennidepli í dagskrá daganna. Á Litla torgi héldu frábærir fyrirlesarar erindi sem tengdust geðheilbrigði á einn eða annan hátt. Einnig glöddu heimsóknarhundar Rauða krossins gesti og gangandi.

Heimsóknarhundur á vegum Rauða krossins

Fyrsti desember

Þann 1. desember héldum við hátíðardag stúdenta hátíðlegan með því að halda í hefðirnar og hefja daginn á því að ganga með blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar.  Við leiðið flutti forseti Stúdentaráðs hugvekju og rektor Háskóla Íslands hélt stutta tölu. Í hádeginu var boðið upp á kakó og kaffi, súkkulaði og smákökur fyrir prófþreytta stúdenta á Háskólatorgi.

Við leiði Jóns Sigurðssonar þann 1. desember

Stúdentaráð óskar stúdentum, og landsmönnum öllum, gleði og farsældar á nýju ári og þökkum ánægjulegar stundir á því liðna. Við hlökkum til að halda áfram öflugri hagsmunabaráttu stúdenta á komandi ári.

 

Deila

facebook icon
linkedin icon