1920

Stúdentaráð stofnað

Fyrsta kosning til Stúdentaráðs fór fram 11. desember árið 1920, en félagið var og er hagsmuna- og félagsmálaráð stúdenta. Á þessum tíma var Háskóli Íslands í Alþingishúsinu við Austurvöll. Háskólaráð leyfði stúdentum háskólans, með samþykki forseta Alþingis, að nota veitingastofu Alþingis, Kringlu, til afnota sem lestrarstofu.

1921

Stúdentaráð stofnar mötuneyti

Stúdentaráð Háskóla Íslands stofnar mötuneyti fyrir stúdenta, Mensa academica, í nóvember 1921. Það var til húsa í Lækjargötu 2 og starfaði þar í átta ár. Markmiðið var að bjóða nemendum háskólans upp á fæði á viðráðanlegu verði og var mötuneytið mjög vel sótt framan af enda varð staðurinn að nokkurs konar félagsheimili stúdenta. Nokkuð dró úr aðsókninni undir lokin þannig að Stúdentaráð neyddist til að loka mötuneytinu í byrjun sumars árið 1929. Ástæðan var viðvarandi hallarekstur.

1928

Félag háskólakvenna, íþróttafélag og leiklistafélag stúdenta stofnað. Grunnur settur að fyrsta stúdentagarðinum.

Félag háskólakvenna og kvenstúdenta stofnað 7. apríl. Þann dag komu sex konur saman í Reykjavík, að frumkvæði dr. Bjargar C. Þorláksson, og stofnuðu félag íslenskra háskólakvenna. Fyrsta verkefnið var að sækja um inntöku í alþjóðafélagsskap háskólakvenna sem hafði verið formlega stofnaður 11. júlí 1919. Íþróttafélag háskólans stofnað 21. janúar en þótt starfsemi þess sé lítil í dag á félagið að baki íslandsmeistaratitla bæði í blaki og körfuknattleik. Leikfélag stúdenta stofnað 23. febrúar fyrir forgöngu fjögurra fyrrverandi forvígismanna leiklistar í Menntaskólanum í Reykjavík á árunum 1921-1925, Lárusar Sigurbjörnssonar, Ólafs Þorgrímssonar, Guðna Jónssonar og Þorsteins Ö. Stephensen. Stofnendur félagsins voru 45 að tölu. Sjálfboðaliðar í grunni fyrirhugaðs stúdentagarðs á Skólavörðuholti. Á myndinni er Magnús Jónsson, dósent í Guðfræðideild (þá settur prófessor), ásamt nemendum sínum.

1933

Hlutbundnar og leynilegar kosningar til Stúdentaráðs

Hlutbundnar og leynilegar kosningar til Stúdentaráðs teknar upp með lagabreytingu. Sérstakir listar voru boðnir fram í kosningum til ráðsins og fljótlega mynduðust pólitísk samtök sem sáu um slík framboð. Fyrstu samtökin, Félag róttækra háskólastúdenta, voru stofnuð árið 1933. Innan þeirra störfuðu stúdentar sem hallir voru undir Kommúnistaflokkinn í landsmálum en að þeim stóðu einnig framsóknarmenn og kratar.

1934

Fyrstu stúdentar flytja inn á Stúdentagarð

Fyrstu stúdentarnir flytja inn á stúdentagarðinn um haustið. Sumarið 1933 hafði verið hafist handa við byggingu stúdentagarðsins rétt sunnan við Hringbraut, um leið og hætt var við framkvæmdir sem þegar voru hafnar við slíka byggingu á Skólavörðuholti. Stúdentagarðurinn var byggður eftir teikningu Sigurðar Guðmundssonar, húsameistara ríkisins, og tóku framkvæmdir skamman tíma. Í húsinu voru vistarverur fyrir 37 stúdenta, herbergi fyrir garðprófast, lestrarsalur, bókaherbergi og íþróttasalur í kjallara.

1935

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, stofnað

Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, stofnað sem svar við öðrum nýlega stofnuðum hreyfingum: Félagi róttækra háskólastúdenta, sem aðhylltist sósíalísk og kommúnísk gildi, og Félagi þjóðernissinnaðra stúdenta, sem barðist fyrir þjóðernissinnuðum gildum. Vaka er enn virkt í dag.

1940

Breska hernámsliðið leggur undir sig stúdentagarðinn

Breska hernámsliðið leggur undir sig stúdentagarðinn og breytir honum í hersjúkrahús. Stúdentar mótmæltu harðlega og gengu kröfugöngur að sendiráði Breta. Húsið fékkst ekki afhent aftur fyrr en undir stríðslok. Margir stúdentar áttu við húsnæðisvanda að stríða á þessum tíma. Aðdragandi þessa var að um vorið þetta ár var Ísland hernumið af Bretum og tók hernámsliðið ýmsar opinberar byggingar til sinna nota, í lengri eða skemmri tíma. Í kjölfarið var ráðist í byggingu Nýja-Garðs.

1943

Fyrstu stúdentarnir flytja inn á Nýja-Garð

Fyrstu stúdentarnir flytja inn á Nýja-Garð árið 1943. Garðurinn var fullbúinn í september 1943, tæplega hálfu öðru ári eftir að byggingarframkvæmdir hófust. Í Nýja-Garði var 63 herbergi og fyrsta veturinn fengu 90 stúdentar þar inni, með því að tveir bjuggu í mörgum einbýlisherbergjum vegna húsnæðisvandræða stúdenta. Arkitektarnir Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson teiknuðu Nýja-Garð.

1945

Útgáfa blaðsins Vér mótmælum allir

Stúdentafundur haldinn um herstöðvarmálið, Stúdentaráð stendur í kjölfarið að útgáfu blaðsins Vér mótmælum allir ásamt öllum stjórnmálafélögum innan háskólans og Stúdentafélagi Reykjavíkur.

1951

Stúdentaráð Háskóla Íslands kemur á vinnumiðlun

Stúdentaráð Háskóla Íslands kemur á vinnumiðlun fyrir háskólastúdenta. Ráðið kaus þrjá menn í nefnd til að útvega háskólastúdentum vinnu yfir sumartímann. Nefndin lét prenta umsóknareyðublöð í upphafi ársins og bárust henni 30 umsóknir um vinnu. Nefndin skrifaði í kjölfarið tæplega 20 atvinnufyrirtækjum en hún átti að auki samstarf við ASÍ og Vinnuveitendasamband Íslands. Undirtektirnar voru dræmar, enda var þetta fyrsta tilraun ráðsins til þess að útvega stúdentum vinnu og allmikið atvinnuleysi var á þessum tíma. Nokkrir stúdentar munu þó hafa fengið vinnu hjá Sameinuðum verktökum fyrir atbeina nefndarinnar. Nefndin lagði þá lista fyrir Ráðningarstofu Reykjavíkurbæjar og fengu þá allmargir stúdentar vinnu. Einnig liðkaði nefndin til fyrir því að stúdentar fengju vinnu við umhirðu háskólalóðarinnar sumarið 1952.

1954

Tíðar fundarsetur Stúdentaráðs

Alls voru haldnir 45 fundir í Stúdentaráði háskólaárið 1953-1954 undir stjórn formanns þess, Björns Hermannssonar. Mun þessi fjöldi funda vera algjört einsdæmi. Fundir voru lengst af haldnir í hverri viku og aukafundir eftir þörfum, einkum í sambandi við undirbúning hátíðisdags stúdenta, 1. desember, og blaðaútgáfu fyrir 17. júní.

1956

Hagkvæmar utanlandsferðir fyrir stúdenta

Stúdentaráð samþykkir á fundi sínum í mars þetta ár tillögu um að kjósa þriggja manna ferðanefnd sem er ætlað að bjóða stúdentum hagkvæmar ferðir til útlanda. Síðar var Ferðaskrifstofa stúdenta stofnuð. Hún var til húsa við Stúdentaheimilið á Hringbraut. Stúdentaráð samþykkir jafnframt tillögu um undirbúning að byggingu hjónagarðs fyrir stúdenta.

1957

Stúdentar fá einn fulltrúa í háskólaráð

Með lögum settum þetta ár fengu stúdentar einn fulltrúa í háskólaráði. Frá árinu 1978 fjölgaði síðan fulltrúum stúdenta í fjóra en auk þeirra áttu sæti í ráðinu háskólarektor, deildarforsetar og tveir fulltrúar Félags háskólakennara. Með lögum um Háskóla Íslands frá 1999 fækkaði aftur í ráðinu og stúdentar fengu þá tvo fulltrúa sem kosnir voru beint af stúdentum.

1959

Stúdentaráð hlýtur fjármagn

Fjármagn fæst til að ráða fastan starfsmann Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Starfið var auglýst og sóttu tveir stúdentar um. Ráðið samþykkti samhljóða að veita starfið Herði Sigurgestssyni.

1960

Gamli-Garður rekinn sem hótel á sumrin

Gamli-Garður (Stúdentagarðurinn við Hringbraut) nefndist einnig Hótel Garður, því húsið var rekið sem hótel á sumrin frá árinu 1960.

1967

Ný lög um námslán og námsstyrki sett

Ný lög um námslán og námsstyrki sett. Námslánakerfið var án efa veigamikil forsenda þess að námsmönnum fjölgaði síðar svo mjög á háskólastigi sem raun bar vitni.

1968

Félagsstofnun Stúdenta stofnuð

Félagsstofnun stúdenta stofnuð og hún tekur við rekstri Gamla-Garðs, Nýja-Garðs, Kaffistofu stúdenta í Aðalbyggingu, Bóksölu stúdenta, barnaheimilisins Efri-Hlíðar og Ferðaþjónustu stúdenta. Félagsstofnun stúdenta var sett á stofn af Stúdentaráði og háskólaráði. Bygging og leiga á stúdentagörðum hefur verið eitt veigamesta verkefni Félags­stofnunar. Háskólaráð útvegaði Félagsstofnun lóðir undir stúdentagarða og leikskóla á háskólalóð en háskólaráð samþykkti byggingarframkvæmdirnar.

1969

Stúdentar taka þátt í kosningu rektors

Árið 1969 fengu stúdentar í fyrsta sinn rétt á að taka þátt í kosningu rektors. Í kosningu þeirra fékk Jóhann Axelsson, lífeðlisfræðingur og prófessor í læknadeild, flest atkvæði, en það nægði honum ekki til að fá rektorsstarfið. Í síðari umferð var kosið á milli Magnúsar Más Lárussonar og Magnúsar Magnússonar, og sigraði Magnús Már með atbeina stúdenta.

1971

Stúdentaheimilið við Hringbraut opnað

Stúdentaheimilið í eigu Félagsstofnunar stúdenta gjörbreytti allri félagsaðstöðu stúdenta.

1971

68 kynslóðin

Þegar „68-kynslóðin“ var áberandi í samfélaginu urðu til margar nýjar hugmyndir um hlutverk námsmanna. Námsmenn voru ekki lengur fyrst og fremst karlkyns og úr efri stéttum þjóðfélagsins heldur voru þeir nú af báðum kynjum, upprunnir úr flestum stéttum og gengu inn í háskólana með ólíkari hugmyndafræðilegan og félagslegan bakgrunn en forverar þeirra. Óhefðbundin og pólitísk barátta stúdenta, grundvölluð í grasrótarstarfsemi, varð eitt af megineinkennum 68-hreyfingarinnar innan háskólanna. Átti hún eftir að móta Háskóla Íslands umtalsvert og setja sterkan svip á háskólalífið.

1972

Stúdentar mótmæla heimsókn Williams Rogers við inngang Árnagarðs

Stúdentar mótmæla þann 3. maí þetta ár heimsókn William Rogers, utanríksráðherra Bandaríkjanna í Árnagarð þar sem Handritastofnun er til húsa. Mótmælendum tókst að koma í veg fyrir heimsóknina en hér sjást þeir með mótmælaborða við inngang hennar. Myndin birtist í Tímanum þann 4. maí 1972 með eftirfarandi myndatexta : „Móttökunefndin við Árnagarð. Yfir dyrum er fáni Þjóðfrelsisfylkingarinnar Víetnam. Mómælaborðar blasa við og ræða flutt í hátalara. Í andyrinu var hópur fólks, sem ákveðinn var í að hleypa ráðherranum og fylgdarliði ekki inn“.

1972

Fullveldishátíð stúdenta í Háskólabíói

Fullveldishátíð stúdenta í Háskólabíói 1. desember 1972 var haldin undir kjörorðinu Gegn hervaldi – Gegn auðvaldi. Í frétt Tímans er tekið fram að forseti Íslands, Kristján Eldjárn, hafi setið samkomuna, einnig settur háskólarektor, Jónatan Þórmundsson. Álfheiður Ingadóttir stud. scient. setti samkomuna. Guðrún Hallgrímsdóttir matvælafræðingur, Ragnar Árnason þjóðfélagsfræðinemi og Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur héldu ræður. Flutt var dagskrá úr gömlum Alþingistíðindum og fulltrúar erlendra stúdenta fluttu kveðjur. Ályktun um uppsögn herverndarsamningsins við Bandaríkin, úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og stækkun fiskveiðilögsögunnar í 50 sjómílur var samþykkt með lófataki. Í lokin var sunginn alþjóðasöngur verkalýðsins, Internationalinn.

1974

Kona kjörin formaður Stúdentaráðs

Í mars árið 1974 er kona í fyrsta skipti kjörin formaður Stúdentaráðs, Arnlín Óladóttir læknanemi. Kvenréttindi urðu í fyrsta sinn baráttumál á vettvangi stúdenta.

1975

Verkfall háskólastúdenta og Stúdentakjallarinn opnar

Í október 1975 gerðu stúdentar í mörgum deildum Háskólans tveggja daga verkfall til að mótmæla skerðingu námslána. Hér samþykkja stúdentar í einu hljóði á fundi í Árnagarði að halda verkfallinu áfram. Stúdentakjallarinn tekur til starfa á vegum Félagsstofnunar stúdenta. Stúdentakjallarinn var mjög vinsæll samkomustaður stúdenta lengi vel.

1976

Stúdentar mótmæla

Þann 15. nóvember þetta ár mótmæla stúdentar nýrri tilhögun og reglum um námslán með því að safnast saman í menntamálaráðuneytinu. Össur Skarphéðinsson, síðar alþingismaður og ráðherra, er fremst á myndinni.

1980

Ferðaskrifstofa stúdenta hefur starfsemi

Ferðaskrifstofa stúdenta hefur starfsemi. Hún var síðar seld Samvinnuferðum –Landsýn árið 1999.

1981

Atburðir á háskólasvæðinu

Á ýmsu hefur gengið á háskólasvæðinu í gegn um árin, en hér á myndinni sjást lögreglumenn handsama hest við Gamla-Garð við Hringbraut. Fimm lögreglumenn eru búnir að koma höndum yfir hestinn á myndinni.

1987

Konur fleiri en karlar í háskólanum

Þetta ár urðu konur í fyrsta sinn fleiri en karlar á meðal stúdenta og hafa síðan verið í meirihluta. Konur voru í miklum minnihluta á meðal stúdenta Háskóla Íslands fyrstu árin en á 20 ára afmæli skólans voru þær aðeins 8 konur skráðar til náms eða um 5% stúdenta. Fjöldi kvennstúdenta jóks hægt en í kringum 1970 fjölgaði þeim hraðar og fór úr 25 í 39% af heildarfjölda nemenda. Á þessum tíma jókst umræða í samfélaginu um jafnréttismál, kvennafrídegurinn og kvennaáratugur Sameinuðu þjóðanna voru haldnir.

1988

Röskva stofnuð sem framboð gegn Vöku

Röskva stofnuð í febrúar þetta ár þegar tvær hreyfingar, Félag vinstri manna og Umbótasinnar, ákváðu að leiða saman hesta sína í sameiginlegu framboði gegn Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta.

1992

Nýsköpunarsjóður námsmanna stofnaður

Nýsköpunarsjóður námsmanna stofnaður. Rannís tók við umsýslu sjóðsins þann 8. júlí árið 2008.

1994

Stúdentaráð aflar fjár til ritakaupa í Þjóðarbókhlöðu

Stúdentaráð blæs til þjóðarátaks til söfnunar fjár til ritakaupa í Þjóðarbókhlöðu. Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, var verndari átaksins sem gaf af sér 22,5 milljónir króna.

2007

Félagsstofnun stúdenta flytur starfsemi í Háskólatorg

Félagsstofnun stúdenta flytur alla starfsemi sína í Háskólatorg og opnar þar Bóksölu stúdenta og nýja veitingasölu, Hámu

2011

Háskóli Íslands 100 ára

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands. Í skólanum eru fimm fræðasvið sem hvert um sig skiptist í nokkrar deildir. Fræðasviðin eru Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Auk þess er við skólann starfræktur fjöldi rannsókna- og þjónustustofnana.

2012

Stúdentakjallarinn endurreistur

Stúdentakjallarinn opnar á ný í kjallara Háskólatorgs, og verður aftur einn helsti samkomustaður nemenda við skólann.

2013

Stúdentaráð stefnir íslenska ríkinu vegna LÍN

Stúdentaráð stefndi íslenska ríkinu vegna LÍN og höfðu betur. Á mynd má sjá þáverandi skrifstofu Stúdentaráðs árið 2013.

2019

Stúdentar hefja loftslagsverkföll

Í febrúar hóf Stúdentaráð, ásamt Landssamtökum stúdenta og Sambandi íslenskra framhaldsskóla, loftslagsverkföll á hverjum föstudegi. Krafa verkfallana er sú að stjórnvöld lýsi yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála og að þau ásamt fyrirtækjum grípi til aðgerða til að stemma stigu við loftslagsvánni. Verkföllin voru innblásin af verkföllum Greta Thunberg, Fridays for future. Loftslagsverkföllin hljóta viðurkenningu frá Reykjavíkurborg og eru valin maður ársins hjá fréttastofu Stöðvar 2.

2020

Stúdentaráð hundrað ára

Stúdentaráð fagnar aldarafmæli, öflugra en aldrei fyrr. Meðal mála á borði ráðsins voru nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna og áframhaldandi barátta fyrir aðgerðum í loftslagsmálum. Á starfsárinu náðust ýmsir sigrar. Uppbygging stúdentagarða við Gamla Garð hófst eftir langa baráttu, alþjóðafulltrúi stúdenta tók til starfa í fyrsta sinn og tanngreiningum á börnum á flótta var hætt. Einnig tók ráðið upp sérstakt afmælismerki sem sjá má hér.

2020

Starfsemi Stúdentaráðs í dag

Í dag er Stúdentaráð enn að berjast fyrir hagsmunum nemenda við Háskóla Íslands. Aldrei hafa fleiri nemendur verið í háskólanum en um þessar mundir og er því sérstaklega mikilvægt sem nú að ráðið sé á tánnum og fylgist með.