Réttindin þín

Réttindaskrifstofa Stúdentaráðs leitast ávallt við að svara spurningum stúdenta eftir bestu getu og leiðbeina þeim um næstu skref við lausn sinna mála. Öll mál sem varða hagsmuni nemenda eru SHÍ viðkomandi. 

Á Réttindaskrifstofu Stúdentaráðs starfar hagsmunafulltrúi. Hagsmunafulltrúi er umboðsmaður stúdenta gagnvart Háskólanum og leiðbeinir og aðstoðar stúdenta til að gæta réttar síns. Hagsmunafulltrúi sýnir með störfum sínum trúnaðartraust gagnvart öllum sem viðkomandi eru málsmeðferð hverju sinni.

SHÍ hvetur öll að senda inn fyrirspurn sem vilja kanna rétt sinn innan háskólans. Hægt er að ná í okkur í síma 570-0850, senda tölvupóst á netfangið shi@hi.is, eða mæta alla virka daga frá kl. 10:00-17:00 á skrifstofuna á þriðju hæð Háskólatorgs (fyrir ofan bóksöluna) í létt eða ítarlegt samtal um málin.

Réttindi stúdenta í prófahaldi

Próf í Háskóla Íslands geta verið munnleg, skrifleg eða verkleg. Kennarar standa fyrir námsmati og prófum en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér í samræmi við lög og reglur háskólans. Próftími í skriflegum prófum skal að jafnaði ekki vera lengri en þrjár klukkustundir.

Próftímabil er frá 25. nóvember – 9. desember á haustmisseri og á tímabilinu 22. apríl – 8. maí á vormisseri. Skráning í námskeið er jafnframt skráning í próf óháð hvernig námsmati er hagað. Þegar gengist er undir próf er stúdentum skylt að hafa meðferðis persónuskilríki svo ganga megi úr skugga um að þeir eigi próftökurétt.

Kennarar standa fyrir prófum en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglum háskólans. 

Prófa skal sem víðast úr því efni sem er til prófs. Við munnleg próf sem teljast til fullnaðarprófs skal prófdómari vera utan Háskólans. Kennarar dæma skrifleg og verkleg próf nema deild ákveði annað. 

Auglýstum prófdegi verður einungis breytt með ákvörðun deildarforseta að höfðu samráði við Kennslusvið, og að fengnu samþykki allra þeirra sem skráðir eru til viðkomandi prófs.

Einkunnir

Einkunnir skulu birtar í síðasta lagi tveimur vikum eftir próf, þó í síðasta lagi þremur vikum eftir hvert haustmisserispróf í desember. Felist námsmat í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi, er miðað við skiladag ritgerðar/verkefnis eða þann dag sem námsmat fer fram.

Vilji stúdent, sem ekki hefur staðist próf, eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meirihluti stúdenta í námskeiði, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. Niðurstaða prófdómara sem skipaður er eftir að einkunn kennara hefur verið birt getur leitt til lækkunar eða hækkunar á birtri einkunn þegar hún er vegin saman við mat kennara.

Prófsýning

Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar, ef hann óskar þess innan fimmtán daga frá birtingu einkunnar. Kennurum er heimilt að halda prófsýningu fyrir alla nemendur námskeiðs þar sem skýrt er út mat skriflegra úrlausna.

Gömul próf

Stúdentar eiga rétt á aðgangi að gömlum prófum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá dugar ekki ef hluti prófasafnsins sé birtur eða einungis hluti af prófunum sjálfum. Öll gömul próf eiga að vera birt biðji nemendur um það. Kennari ræður þó hvar prófin eru birt og þá þarf t.d. ekki að birta þau á Uglunni eða Canvas. Meginreglan er þó sú að það þarf að gefa stúdentum bæði óheftan aðgang að gögnunum og leyfi til að taka afrit.

Prófnúmer

Skriflegar prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum nemenda. Þó geta deildir sett reglur um undanþágu frá því.

Sjúkrapróf

Stúdent sem veikist og getur þar af leiðandi ekki þreytt próf, ber að skila staðfestingu á veikindum til þjónustuborðs Háskólatorgs innan þriggja daga frá prófdegi. Hið sama gildir ef barn stúdents veikist. Veikist stúdent í prófi ber honum að vekja athygli prófvarðar sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn. Skal læknisvottorði dagsettu samdægurs skilað til þjónustuborðs.

Sjúkrapróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí, í 4 – 5 daga skv. nánari ákvörðun prófstjóra. Deildum er heimilt, að höfðu samráði við prófstjóra, að nýta tímabilið að vori fyrir sjúkrapróf beggja kennslumissera.

 

Ferli kvartana og kærumála

Allar ákvarðanir skólayfirvalda eru kæranlegar skv. stjórnsýslulögum. Um feril kæru og kvartanamála nemenda gildir 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 en hún er aðgengileg hér að neðan.

Telji stúdent brotið á rétti sínum varðandi kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf, mat á námsframvindu eða annað er lýtur að kennslu og prófum skal hann senda skriflegt erindi til skrifstofu deildar. Þar skal skilmerkilega greint frá því hvert álitaefnið er, hver sé krafa stúdents og rökstuðningur fyrir henni. Deild skal fjalla um álitaefnið svo fljótt sem unnt er og afgreiða það, að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða frá því að erindið barst.

Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma, skal tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta. Uni stúdent ekki niðurstöðu deildar getur hann skotið máli sínu til úrskurðar stjórnar fræðasviðs. Slík erindi skulu send skrifstofu fræðasviðsins. Deildir og stjórn fræðasviðs endurmeta ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara eða prófdómara.

Umsækjanda um innritun í framhaldsnám er heimilt að bera synjun deildar og eftir atvikum námsstjórnar undir stjórn viðkomandi fræðasviðs. Ef um þverfræðilegt nám er að ræða er heimilt að bera ákvörðunina undir stjórn þess fræðasviðs sem vistar námið nema annað sé ákveðið í reglum um námið.

Málum verður ekki skotið til stjórnar fræðasviðs fyrr en ákvörðun deildar samkvæmt 1. eða 2. mgr. liggur fyrir eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kvörtun samkvæmt 1. mgr. var fyrst skriflega lögð fyrir deild. Forseti þeirrar deildar er í hlut á víkur sæti við umfjöllun og afgreiðslu erinda af þessu tagi í stjórn fræðasviðs.

Ákvarðanir stjórnar fræðasviðs samkvæmt þessari grein eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Nefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Málum verður ekki skotið til áfrýjunarnefndarinnar fyrr en stjórn fræðasviðs hefur tekið ákvörðun í málinu eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst skriflega lögð fyrir stjórn fræðasviðs. Leiðbeina skal um kæruheimild þegar ákvarðanir samkvæmt þessari grein eru tilkynntar.

Reglur Háskóla Íslands

Lög um opinbera háskóla, nr. 85/2008, tóku gildi 20. júní 2008 (síðan breytt með lögum nr. 140/2013). Reglur sem Háskólaráð Háskóla Íslands setur eru svo nánari útfærsla á þessum lögum sem um Háskólann gilda. Það er reglur Háskóla Íslands. Hver og ein deild er svo með nánari útfærslur á reglum Háskólans sem snertir deildina beint.

Undir þessum reglum eru svo ýmsar verklagsreglur sem háskólinn vinnur eftir. Þær verklagsreglur sem tengjast málefnum stúdenta með beinum hætti eru eftirfarandi:

Í Háskólanum eru einnig siðareglur, hægt er að kæra mál sem brotið hafa á siðareglum til Siðanefnd Háskóla Íslands.

Boðleiðir stúdenta

Stjórn Háskólans er falin háskólaráði og rektor. Stjórnsýsla Háskólans starfar í umboði rektors og háskólaráðs. Fræðasvið eru megin skipulagseiningar Háskóla Íslands og skiptast í deildir, sem eru faglegar grunneiningar Háskólans. Stjórn deildar er í höndum deildarfunda, deildarráðs, ef við á, og deildarforseta. Deildum má skipa í námsbrautir. Stúdentar eiga margvíslega aðild að ákvörðunum sem þessir aðilar taka. Stúdentar eiga fulltrúa í kennslunefndum deilda og námsnefndum deilda, starfsnefndum háskólaráðs, á fundum námsbrauta, deildarfundum, deildarráðsfundum, í stjórnum fræðasviða og í háskólaráði. Þá sitja fulltrúar stúdenta háskólaþing, sem er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins.

Hvert fræðasvið starfrækir stjórnsýslu og stoðþjónustu en stjórn fræðasviðs fjallar um sameiginleg málefni fræðasviðsins. Forseti fræðasviðs er yfirmaður sviðsins, stýrir daglegri starfsemi og er akademískur leiðtogi þess og talsmaður innan Háskólans og utan.

Deildarfundur, undir forsæti deildarforseta, er æðsti ákvörðunaraðili í hverri deild. Forseti deildar er faglegur forystumaður deildar og ber í samráði við forseta fræðasviðs ábyrgð á stefnumótun deildar, skipulagi náms og gæðum kennslu og rannsókna.

Sviðsstjóri kennslusviðs hefur yfirumsjón og eftirlit með sameiginlegum málefnum er lúta að kennslu, prófahaldi og skrásetningu stúdenta.