Stúdentaráð Háskóla Íslands
Stúdentaráð Háskóla Íslands er hagsmunaafl í þágu stúdenta sem hefur verið starfandi frá árinu 1920.
Stúdentaráð samanstendur af 17 fulltrúum sem eru kjörnir á vormisseri ári hverju í stúdentaráðskosningum meðal allra stúdenta við Háskóla Íslands. Eins og kerfið er í dag eru 3 fullrúar af hverju fræðasviði nema 5 fulltrúar á Félagsvísindasviði vegna þess að það er stærsta sviðið. Fulltrúarnir eru ákvarðaðir í samræmi við fjölda nemenda á fræðasviðunum. Stúdentar kjósa á milli framboðslista á sínu fræðasviði, og fá fulltrúar ráðsins fái sæti í samræmi við hlutfall kosninga. Niðurstöður Stúdentaráðskosninga 2020 má finna hér.
Á tveggja ára fresti fara fram kosningar til Háskólaráðs. Kosið er samhliða stúdentaráðskosningunum rafrænt á Uglunni. Stúdentar hafa tvo kjörna fulltrúa í ráðinu að hverju sinni. Þar bjóða stúdentahreyfingarnar fram tvo aðalfulltrúa og tvo varafulltrúa til ráðsins. Þeir fulltrúar sem eru kjörnir inn sitja í ráðinu í tvö ár.
Verkefni Stúdentaráðs eru mörg og fjölbreytt, allt frá því að berjast fyrir bættum kjörum stúdenta og svo að halda skemmtilega viðburði eins og til dæmis Októberfest. Stúdentaráð starfrækir einnig réttindaskrifstofu á 3. hæð Háskólatorgs sem stúdentar geta leitað til ef þeir telja að brotið hafi verið á rétti þeirra.
Stjórn Stúdentaráðs er eftirfarandi:
Forseti hefur yfirumsjón með innra starfi Stúdentaráðs og er málsvari þess út á við
Varaforseti sér um markaðssetningu SHÍ, nefndir ráðsins og önnur tilfallandi verkefni
Hagsmunafulltrúi er stúdentum innan handar og stendur vörð um hagsmuni þeirra í námi
Lánasjóðsfulltrúi aðstoðar stúdenta með lánasjóðsmál og er fulltrúi þeirra í stjórn Menntasjóðsins
Framkvæmdastýra hefur umsjón með daglegum rekstri réttindaskrifstofu Stúdentaráðs
Alþjóðafulltrúi hefur umsjón með þjónustu réttindaskrifstof stúdenta við erlenda nemendur
Ritstýra ritstýrir Stúdentablaðinu sem er málgagn allra nemenda við Háskóla Íslands