16. mars, 2023

Háskólann vantar milljarð, núna

Stúdentar gjalda misbresti stjórnvalda

Með ónógri fjárveitingu í mörg ár hafa stjórnvöld brugðist skyldu sinni varðandi grunnstarfsemi háskólanna. Til að brúa bilið sem myndast hefur í rekstri hafa háskólayfirvöld meðal annars brugðið á það ráð að óska eftir því að skrásetningargjöld stúdenta verði hækkuð. Á Íslandi borga stúdentar margfalt hærra skrásetningargjald en þekkist á Norðurlöndunum og er núna til umræðu að hækka gjaldið enn frekar. Stúdentaráð leggst alfarið gegn hækkun skrásetningargjaldsins sem er nú þegar allt of hátt. Það takmarkar aðgengi að háskólamenntun og skerðir jafnrétti til náms.

 

Stúdentar splæsa

Háskólayfirvöld hafa óskað eftir því að skrásetningargjaldið verði hækkað í 95.000 kr. Skrásetningargjald er þjónustugjald, en ekki er að sjá að hækkunin samræmist þjónustunni sem gjaldið á að ná til. Má því draga þá ályktun að óréttmætri byrði á rekstri háskólans sé velt enn frekar yfir á stúdenta. Hækkun gjaldsins jafngildir dropa í hafið fyrir háskólann, en er verulega íþyngjandi fyrir nemendur. HÍ er opinber stofnun og grunnstoð í lýðræðissamfélagi. Sem slík er rekstur hennar í höndum ábyrgra stjórnvalda.

 

Af hverju eru háskólayfirvöld að óska eftir því að gjaldið verði hækkað?

Vegna þess að Háskóla Íslands vantar peninga til að halda uppi grunnstarfsemi sinni. 

Það er ekki tilviljun að ósk rektors um hækkun gjaldsins kemur nú, á sama tíma og stjórnvöld  skáru niður framlög til Háskóla Íslands í fjárlögum sem samþykkt voru fyrir áramót. Þessi beiðni um hækkun gjaldsins nú ekkert annað en örvæntingarfull tilraun háskólayfirvalda til þess að reyna að ná endum saman fyrir komandi ár vegna þess að stjórnvöld sinna ekki lögbundinni skyldu sinni til þess að halda uppi grunnstarfsemi háskólanna með nægilegri fjárveitingu á fjárlögum. 

Finnst þér sanngjarnt að vera látin borga fyrir það sem aðrir eiga að borga?

 

Kostar virkilega hundrað þúsund kall að skrá okkur í skólann?

Stutta svarið er nei. Háskólinn rökstyður gjaldið með kostnaðarliðum að baki gjaldinu, sem Stúdentaráð dregur í efa að standist lög um opinbera háskóla, þ.e. að háskólinn sé að rukka stúdenta meira en lögin heimila. Gjaldið fer nefnilega í mun fleiri hluti en bara skráningu nemenda og það fer í ýmsa þjónustu burtséð frá því hvaða þjónustu stúdent nýtir sér. Kostnaðarliðirnir eru m.a.: 

  • Aðgangur að tölvum, prenturum ofl.
  • Þjónusta alþjóðaskrifstofu
  • Til samtaka og stofnana stúdenta, FS, SHÍ
  • Upplýsingamiðlun og námsráðgjöf
  • Skrásetning stúdenta í námskeið og próf
  • Aðstaða og stjórnun
  • Aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu
  • Skrifstofa kennslusviðs
  • Skipulag kennslu og prófa
  • Nemendakerfi

Lögin taka fram að skrásetningargjaldið megi ekki fara í kostnað vegna kennslu- og rannsókna en Stúdentaráð telur það hins vegar vera raunin. Hvað finnst þér? Finnst þér t.d. kostnaður vegna skipulags kennslu ekki falla undir kostnað vegna kennslu?

 

Er ekki eðlilegt að skrásetningargjaldið hækki á milli ára?

Það er eðlilegt að gjöld taki mið af verðlagsbreytingum milli ára, en lykilatriðið er að hluti skrásetningargjaldsins á að dekka kostnað sem  er alls ótengdur eiginlegri skrásetningu stúdenta. Stúdentaráð telur því ekki halda vatni að rökstyðja hækkun gjaldsins nú með vísitöluhækkunum á núverandi kostnaðarliðum (sjá að ofan), þar sem vafi leikur á um hvort þeir standist lög.

 

Hversu hátt er gjaldið á hinum Norðurlöndunum?

Það tíðkast almennt hvorki að innheimta skrásetningar- né skólagjöld af stúdentum í opinberum háskólum á hinum Norðurlöndunum. Helsta undantekningin er Noregur þar sem nemendur greiða gjöld á bilinu 4.100 – 22.000 krónur, samkvæmt landssamtökum stúdenta í Noregi. Stúdentar við Háskóla Íslands greiða núna 75.000 krónur á hverju ári í skrásetningargjöld, sem er rúmlega þrefalt meira en í sambærilegum opinberum háskólum í Noregi, eða 340% meira.

Það að gjaldið sé margfalt hærra hérlendis er ein birtingarmynd fjársveltis háskólastigsins.

 

Hver ræður því hvort að gjaldið verði hækkað og hvað þarf að gerast?

Það þarf breytingu á lögum um opinbera háskóla til að hægt sé að hækka gjaldið. Ráðherra háskólamála, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þarf því að leggja fram frumvarp á Alþingi til þess að hækka það hámarkið sem opinberum háskólum er heimilt að innheimta af nemendum skv. þeim lögum. Ef slík lagabreyting yrði samþykkt þá getur háskólaráð ákveðið að hækka skrásetningargjaldið.

Stúdentaráð hvetur Áslaugu Örnu til þess að verða ekki við ósk rektoranna heldur leita frekar annarra leiða til að fjármagna opinbera háskóla og mun afhenda henni ítarlegan rökstuðning þess efnis í lok vikunnar. Það þarf að ráðast tafarlaust á rót vandans, sem er fjármögnun opinberrar háskólamenntunar hér á landi, eða réttara sagt skortur á henni. Vasar stúdenta eru nú þegar tómir.

 

Yrði jafnt aðgengi að námi enn tryggt?

Hækkun skrásetningargjaldsins yrði íþyngjandi fyrir marga stúdenta stúdenta og væri aðeins skammtímalausn sem myndi hafa í för með sér fleiri vandamál en hún myndi leysa. Verði áform um hækkun að veruleika mun aðgengi að opinberri háskólamenntun hérlendis kosta stúdenta 90% af grunnframfærslu eins mánaðar frá Menntasjóði námsmanna, sem lánar nú þegar aðeins fyrir níu af tólf mánuðum ársins. Því er ljóst að eingöngu átta mánaða framfærsla stendur eftir handa stúdentum til að eiga í sig og á.

 

Háskólann vantar milljarð, núna

Háskóli Íslands hefur verið fjársveltur um árabil. Fyrir næsta ár vantar skólann milljarð til þess að ná endum saman, og er þar ekki talið með það fjármagn sem vantar til að bæta upp fjárskortinn seinustu ár. Enn meiri niðurskurður er boðaður í fjármálaáætlun fyrir árið 2024. Þessi sveltistefna stangast á við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Stúdentaráð krefst þess að stjórnvöld standi við gefin loforð. Sterkir opinberir háskólar skipta sköpum fyrir samfélagið; hátt menntunarstig bætir lífskjör, eflir verðmætasköpun og eykur velsæld.

 

Fjársvelti háskóla er pólitísk ákvörðun

Opinberir háskólar eru háðir fjármögnun ríkisins. Niðurskurður í fjárlögum eða skortur á fjármagni hefur þess vegna veruleg áhrif á getu þeirra til að veita nemendum góða menntun og þjónustu. Það er því í höndum stjórnvalda að tryggja háskólum nægilegt fjármagn, og að afla því á réttmætan máta. Sé það ekki gert er það meðvituð ákvörðun stjórnvalda hverju sinni.
Að fjársvelta háskólann er pólitísk ákvörðun sem mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð háskólastigsins, og þar með samfélagsins alls.

 

Hvaða afleiðingar hefur fjársveltið?

Fjársvelti Háskóla Íslands hefur víðtæk áhrif. Skortur á fjármagni gerir það að verkum að skólinn getur ekki sinnt grundvallarstarfsemi sinni með góðu móti.

Öll svið háskólans munu þurfa að skera niður í kennslu. Það þýðir meðal annars að færri áfangar verða í boði og gæði náms skerðast. Þá hefur skortur á fullnægjandi fjármögnun til að sinna rannsóknum og kennslu haft þau áhrif að skólinn hefur fallið á alþjóðlegum matslistum.

 

Hvaða loforð eru stjórnvöld að brjóta?

Stjórnvöld hafa gefið lof­orð um stór­sókn í menntun og nauð­syn­legar breytingar á fyrir­komu­lagi fjár­veitinga til há­skóla­stigsins til að tryggja sam­keppnis­hæfni ís­lenskrar há­skóla­menntunar.  Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að fjármögnunin skuli vera sambærileg því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Þrátt fyrir þessi markmið færist Ísland nú fjær því sem gerist á annars staðar í nágrannalöndunum. Þetta eru skýr og, töluleg markmið sem eru þess eðlis að það er alfarið í höndum stjórnvalda að grípa til aðgerða til að ná þeim. 

Ákvarðanir um niðurskurð á fjárframlögum og umræður um hækkun skrásetningargjalda fara á skjön við þau loforð og markmið sem stjórnvöld hafa sjálf sett sér.

 

Hvað geta stjórnvöld gert til að laga þetta?

Stjórnvöld verða að bregðast tafarlaust við stöðunni sem blasir við hjá Háskóla Íslands núna, með auknum fjárveitingum til skólans núna strax. 

Því næst er brýnt að fallið verði frá þeim niðurskurði sem er boðaður í fjármálaáætlun fyrir árið 2024 með breytingum á fjármálaáætlun.

Þá þarf að hlúa að grunnstoðum menntakerfisins til að styrkja það til framtíðar. Fjárveitingar til háskólanna eru ákveðnar samkvæmt reiknilíkani sem var komið á fót árið 1991. Nauðsynlegt að vinnu við að endurskoða reiknilíkan háskólanna verði lokið sem fyrst og að sú vinna skili sér í því að fjármögnun til opinberrar háskólamenntunar hér á landi samræmist samanburðarlöndunum. 

Tryggja þarf rekstrargrundvöll skólanna og draga úr sveiflum í fjárveitingum með því að auka hlutfall fastrar fjármögnunar og annarrar fjárveitingar sem er ekki jafn breytileg og núverandi þættir reiknilíkansins. Vanda þarf til verka við sköpun hvata fyrir háskólanna þannig að þeir hvatar sem innbyggðir verða í fjárveitingar þjóni samfélaginu í heild sinni og stuðli sannarlega að auknum gæðum náms og rannsókna.

 

Hvað munar miklu á fjármögnun HÍ og á Norðurlöndunum?

Samkvæmt tölum frá 2021 eru heildartekjur háskóla á ársnema á Norðurlöndunum að meðaltali 4,6 milljónir króna árlega en á Íslandi aðeins 2,9 milljónir. Nemendur á Íslandi fá því um 1,7 milljónum króna minna. Í samanburði við námsmenn á Íslandi fá:

 

  • Nemendur 90% meira í Danmörku 
  • Nemendur 66% meira í Noregi
  • Nemendur 59% meira í Svíþjóð
  • Nemendur 28% meira í Finnlandi

 

Ísland hefur alla burði til þess að standa jafnfætis nágrannalöndunum þegar kemur að fjármögnun opinberrar háskólamenntunar. 

 

Af hverju skiptir það máli að fjármagna Háskóla Íslands?

Háskóli Íslands er stærsti háskóli landsins og sinnir þýðingarmiklu hlutverki í íslensku samfélagi. öflugt menntakerfi er forsenda framfara og menntun er kjarni í nýsköpun til framtíðar.  Vel fjármagnaður opinber háskóli skiptir sköpum fyrir íslenskt samfélag, eflir lífskjör, verðmætasköpun og samkeppnishæfni menntakerfisins auk samfélagsins á alþjóðavettvangi.

Fjárfesting í menntun er góð fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka í ávinningi fyrir samfélagið allt.

Deila

facebook icon
linkedin icon