3. nóvember, 2025
Skorum á HÍ að endurskoða ákvörðun um að taka ekki inn nýnema í starfstengt diplómanám!
Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar ákvörðun Háskóla Íslands um að taka ekki inn nýnema í starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun á næsta skólaári.
Ákvörðunin er að mestu leyti tekin vegna fjárskorts sem rekja má til vanfjármögnunar háskólastigsins af hálfu stjórnvalda. SHÍ harmar að vanfjármögnun þessi bitni hvað harðast á jaðarsettum hópi í samfélaginu með skertu aðgengi að námsleið ætluðum honum.
Námið hefur veitt stórum hópi fólks með þroskahömlun bæði verkfærin og tækifærið til að öðlast frekara sjálfstæði. Jákvæð áhrif námsins endurspeglast í háu hlutfalli brautskráðra sem eru á vinnumarkaði 2 árum eftir útskrift en einnig í auknu sjálfstrausti nemenda. Nemendur námsleiðarinnar eru stór hluti af skólasamfélaginu. Þau eru virk í störfum nemendafélaga og héldu þau málþing síðastliðna önn í samstarfi við Þroskahjálp, en um 200 manns sóttu viðburðinn.
Námsleiðin er sú eina í boði fyrir þennan hóp á Íslandi og er óásættanlegt að skerða aðgengi að henni enn frekar en nú þegar eru teknir inn á brautina mun færri en útskrifast árlega af starfsbrautum framhaldsskólanna.
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem er fullgildur á Íslandi og stefnt er á að verði lögfestur á næstu misserum er skýrt kveðið á um að allir eigi rétt á menntun án aðgreiningar – á öllum skólastigum. Í 24. grein samningsins segir sérstaklega að fatlað fólk eigi að hafa aðgang að háskólanámi á jafnræðisgrundvelli við aðra, með viðeigandi aðlögun og stuðningi. Háskóla Íslands ber að uppfylla skilyrði samningsins.
Því skorar SHÍ á stjórnvöld og Háskóla Íslands að tryggja fjármögnun og inntöku nýnema á hverju ári án tafar. Slíkt er forsenda fyrir jöfnu aðgengi að menntun og fullgildri þátttöku allra í samfélaginu. Háskólinn á að vera stoltur af því að bjóða upp á fjölbreytt nám fyrir fjölbreyttan nemendahóp og á að halda því góða starfi áfram. Háskóli Íslands á að vera háskóli allra landsmanna og því er mikilvægt að hafa inngildandi stefnu að leiðarljósi. Starfstengda diplómanámið hefur verið skólanum til sóma og krefst Stúdentaráð þess að það haldi áfram að vera það.
Tillaga um ofangreint var einróma samþykkt á fundi stúdentaráðs.