9. maí, 2023

Ályktun Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna byggðar í Nýja Skerjafirði

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna byggðar í Nýja Skerjafirði:

Skýrsla starfshóps sem innviðaráðherra skipaði til að meta áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar hefur nú loksins verið gefin út. Stúdentaráð fagnar því að niðurstaða skýrslunnar sé skýr um að ekki sé þörf á því að hætta við byggingaráform í Nýja Skerjafirði, heldur sé nóg að grípa til mótvægisaðgerða. 

Mikil aðsókn er á stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta (FS) og telur biðlistinn í dag tæplega 900 manns, sem er um helmingi meira en á sama tíma í fyrra. FS hefur unnið að því að stytta biðlista með stöðugri uppbyggingu síðustu ár en nú er staðan hins vegar sú að ef uppbygging í Skerjafirði tefst lengur eða fer ekki af stað mun FS ekki geta byrjað á nýju verkefni fyrr en árið 2025, þar sem FS hefur næst vilyrði fyrir lóðum árin 2025 og 2026. Stúdentaráð krefst þess að nú verði hlustað á sérfræðinga og að uppbygging verði ekki tafin enn frekar, enda er bráð þörf á áframhaldandi uppbyggingu stúdentagarða og sú staðreynd að stjórnmálafólk reyni að standa í vegi fyrir henni ólíðandi

Skerjafjörðurinn er einstaklega mikilvæg staðsetning fyrir stúdenta í grennd við háskólann, en þar hefur FS á áætlun að byggja allt að 107 íbúðir í Skerjafirði I, auk þess sem að skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu um úthlutun lóða í Skerjafirði II. Samkvæmt áætlunum FS eiga þar að rísa fjölskylduíbúðir. Fjölgun slíkra íbúða mun verða til þess að auka húsnæðisöryggi foreldra í námi og barna þeirra, en samkvæmt Eurostudent VI á um þriðjungur íslenskra stúdenta eitt barn eða fleiri.

Niðurstöður könnunar Eurostudent VII hafa sýnt að 43% stúdenta á Íslandi búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað og ríma þessar tölur við skýrslu Stúdentaráðs um stúdenta á húsnæðismarkaði. Aukið aðgengi að stúdentaíbúðum á hagstæðu verði er mikilvægur liður í að lækka þetta hlutfall og tryggja jafnara aðgengi að námi.

 

Deila

facebook icon
linkedin icon