1. april, 2021

Viðbrögð Stúdentaráðs vegna úthlutunarreglna Menntasjóðs námsmanna skólaárið 2021-2022

Úthlutunarreglur hjá Menntasjóði námsmanna fyrir skólaárið 2021-2022 hafa verið samþykktar af mennta- og menningarmálaráðherra. 

Stúdentaráð furðar sig á að ákvörðun um hækkun grunnframfærslu framfærslulána hafi ekki legið fyrir þegar úthlutunarreglurnar voru samþykktar. Stúdentar hafa lengi krafist þess að grunnframfærslan sé hækkuð og verið í ítrekuðum samskiptum við stjórnvöld um ferli málsins, því telur Stúdentaráð skjóta skökku við að fulltrúar stúdenta hafi ekki verið upplýstir um stöðu mála og að hækkun myndi ekki liggja fyrir þegar úthlutunarreglurnar voru birtar í gær og að nýjum hópi ráðuneytisstjóra yrði falið að vinna tillögur þess efnis fyrir 1. maí nk.. Stúdentaráð hefur haldið því til streitu að grunnframfærslan verði að hækka þannig að hún samsvari að lágmarki dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. 

Stúdentaráð bindur vonir við að stjórnvöld sýni stuðning í verki og að tillögur hóps ráðuneytisstjóra skili sér í hækkun umfram verðlagsbreytinga. Þá tekur ráðið undir athugasemdir SÍNE vegna kjara námsmanna erlendis og telur það vonbrigði að baráttumál SÍNE sé ekki að finna í úthlutnarreglunum. Um er að ræða varnagla sem snýr að því að stjórn sjóðsins verði að kanna hvort námsmenn erlendis eigi rétt á staðaruppbót ef gengissveiflur eru miklar.

Helstu breytingar á úthlutunarreglum Menntasjóðsins fyrir skólaárið 2021-2022

Hækkun á frítekjumarki
Stúdentaráð fagnar því að frítekjumarkið hækkar úr 1.364.000 kr. í 1.411.000 kr. Heimilt er að fimmfalda frítekjumarkið ef stúdent hefur ekki verið að taka námslán hjá sjóðnum s.l. 6 mánuði. Stúdentaráð telur að heimildin nái ekki til allra stúdenta og ítrekar afstöðu sína að öllum súdentum eigi að gefast kostur á að sækja um fimmföldun á frítekjumarkinu.

Aukið svigrúm hvað varðar lánshæfar einingar og lánsrétt
Stúdentaráð fangar auknum svegjanleika fyrir stúdenta sem varða skiptingu á lánsrétti milli námsstiga. Í fyrri úthlutunarreglum voru 180 ECTS-einingar eyrnarmerktar grunnnámi og 120 ECTS-einingar eyrnamerktar meistaranámi. Nú hafa þessi námsstig verið sameinuð og eiga stúdentar rétt á láni fyrir 300 ECTS-einingum í grunn- eða meistaranám. Þetta þýðir að stúdentar hafa svigrúm til að ráðstafa 300 ECTS-einingum í grunn- eða meistaranám. Sameiginlega svigrúmið upp á 120 ECTS-einingar (til viðbótar að eigin vali á grunn-, meistara- eða doktorsstigi) ásamt 60 ECTS-eininga lánsréttur í doktorsnámi er óbreytt.

Undanþága er varðar örorku
Skilyrði fyrir undanþágu vegna námsframvindu vegna örorku er lækkað úr 75% í 50% hlutfall. SHÍ telur að með þessari breytingu eykst aðgengi að menntun fyrir þá námsmenn sem falla undir undanþáguna.

Umsóknarfrestir
Umsóknarfrestir fyrir námslán hafa verið færðir og verða núna 15. september (fyrir haustmisseri), 15. janúar (fyrir vormisseri) og 15. júní (fyrir sumarmisseri). SHÍ fagnar að umsóknarfrestirnir hafi verið færðir örlítið lengra inn á misserin. Þó verður að hafa í huga að aðstæður stúdenta geta breyst verulega á miðju misseri og því telur ráðið að umsóknarfrestirnir séu enn þá of snemma á misserunum.

Séreignarsparnaður greiddur út 2021
Umsækjendur um námslán sem fá greiddan út séreignarsparnað á árinu 20210 geta óskað eftir því að hann verði undanþeginn við útreikning á námsláni skólaárið 2021-2022.

Tekjur vegna vinnu í bakvarðarsveit
Námsmenn geta óskað eftir því að tekjur sem aflað er vegna vinnu fyrir bakvarðasveitir heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar og bakvarðasveit lögreglunnar komi til frádráttar við útreikning á námsláni.Stúdentaráð vekur athygli á að hægt er að finna nánari upplýsingar um endurgreiðslur H-lána í nýjum úthlutunarreglum.
Stúdentaráð vill upplýsa stúdenta að krafan um þinglýsta leigusamninga er enn að finna í úthlutunarreglum næsta skólaárs.

Deila

facebook icon
linkedin icon