2. september, 2025
Opið fyrir umsóknir í nefndir SHÍ
Kæru stúdentar!
Nefndir Stúdentaráðs eru í leit að sínum fimmta meðlim til að ganga til liðs við sig. Um er að ræða félagslífs- og menningarnefnd, fjármála- og atvinnulífsnefnd, fjölskyldunefnd, lagabreytinganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd. Auk þess eru alþjóðanefnd og nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd að leita að þremur meðlimum hvor.
Í umsókninni skal taka fram stutta kynningu á umsækjanda og fyrri reynslu sem gæti nýst í nefndinni, námsleið umsækjanda og hvers vegna hann telur sig eiga heima í nefndinni. Umsóknir skulu berast á netfangið shi@hi.is.
Umsóknarfrestur í allar nefndirnar er til miðnættis þann 10. september 2025.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir starfsemi nefndanna, en frekari upplýsingar má einnig finna á heimasíðu Stúdentaráðs.
Alþjóðanefnd
Alþjóðanefnd tekur til meðferðar mál er varða hagsmuni erlendra stúdenta við HÍ og mál íslenskra stúdenta erlendis. Hún heldur einnig utan um tengiliðaverkefni sem gefur íslenskum nemendum og erlendum skiptinemum færi á að kynnast. Nefndin vinnur í samstarfi við skrifstofu alþjóðasamskipta Háskóla Íslands.
Félagslífs- og menningarnefnd
Verkefni nefndarinnar eru margvísleg en hún sér um skipulagningu, framkvæmd og utanumhald á hinum ýmsu viðburðum innan Háskóla Íslands, t.d. viðburði í tengslum við Októberfest SHÍ og Fyndnasta háskólanemann. Nefndin leggur áherslu á að auka stemningu á háskólasvæðinu.
Fjármála- og atvinnulífsnefnd
Nefndin tekur til meðferðar atvinnumál stúdenta auk tengsla þeirra við atvinnulífið. Markmið nefndarinnar er að skapa mikilvæga tengingu stúdenta við atvinnulífið, tengingu sem helst til framtíðar.
Fjölskyldunefnd
Fjölskyldunefnd vinnur að almennri hagsmunabaráttu fjölskyldufólks við HÍ og markmið nefndarinnar er að styðja sem best við stúdenta sem eiga börn svo þau geti sinnt bæði námi og fjölskyldulífi. Nefndin skipuleggur fjölmarga fjölskylduvæna viðburði, svo sem Íþróttaskóla SHÍ og Fjölskylduhátíð SHÍ svo eitthvað sé nefnt.
Lagabreytinganefnd
Lagabreytinganefnd Stúdentaráðs hefur það hlutverk að endurskoða lög Stúdentaráðs og Stúdentasjóðs og leggja fram tillögur til breytinga á þeim, ef þurfa þykir. Nefndin skal líta til þess að lögin séu skýr, aðgengileg, samræmd og tryggi skilvirkni í störfum Stúdentaráðs.
Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd
Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd Stúdentaráðs hefur það hlutverk að efla nýsköpunar- og frumkvöðlastarf meðal nemenda Háskóla Íslands. Nefndin vinnur náið með Icelandic Startups og kemur verkefnum þeirra á framfæri meðal háskólanema. Nefndin hefur m.a. tekið að sér verkefni innan Gulleggsins.
Umhverfis- og samgöngunefnd
Umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs sinnir umhverfismálum samanber endurvinnslu, sjálfbærnisstefnu Háskóla Íslands, samgöngumálum og skipulagsmálum tengdum háskólasvæðinu og byggingum FS. Nefndin hefur það að markmiði að auka umhverfisvitund stúdenta með ýmsum viðburðum innan háskólans.