13. ágúst, 2025
Kyrrstaða rofin í geðheilbrigðismálum stúdenta
Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar þeirri ákvörðun að fjórði sálfræðingurinn hafi verið ráðinn til starfa við Náms- og starfsráðgjöf HÍ. Um er að ræða 50% stöðu sem Háskóli Íslands mun fjármagna miðlægt næstu þrjú árin.
Ákvörðunin kemur í kjölfar markvissrar hagsmunabaráttu SHÍ síðustu misseri í góðri samvinnu við geðheilbrigðisteymi skólans og Nemendaráðgjöf HÍ. Í mars stóð ráðið fyrir góðgerðaviku til að vekja athygli á stöðu sálfræðiþjónustunnar. Í apríl gaf ráðið út yfirlýsingu þar sem skorað var á háskólann að ráðast tafarlaust í úrbætur.
Þá hafa fylkingarnar tvær, Vaka og Röskva, verið á einu máli um að fjölga sálfræðingum við skólann.
Aðeins fyrsta skrefið
„Við höfum ítrekað bent á að þrír sálfræðingar í einu og hálfu stöðugildi dugi ekki fyrir skóla með nær 14.000 nemendur. Það er ánægjulegt að sjá að baráttan er að skila árangri,“ segir Valgerður Laufey Guðmundsdóttir, hagsmunafulltrúi SHÍ.
Frá Nemendaráðgjöf HÍ kemur að unnið hafi verið að málinu í samráði við SHÍ og að staðan hafi verið samþykkt strax á öðrum degi Silju Báru Ómarsdóttur sem rektors. Nýr sálfræðingur tekur til starfa í ágúst.
Ráðið fagnar þessum áfanga, en minnir jafnframt á að þetta sé aðeins fyrsta skrefið. SHÍ mun áfram beita sér fyrir því að sálfræðingar verði ráðnir í 100% stöður og þjónustan efld til að mæta raunverulegri þörf nemenda.