21. maí, 2024

Spila háskólarnir hlutverk í hinni grænu umbreytingu?

Þann 21. febrúar sl. tók varaforseti Stúdentaráðs, Dagmar Óladóttir, þátt í pallborðsumræðum á málþingi á vegum Landbúnaðarháskólans og Sjáfbærnistofnun Háskóla Íslands sem bar titilinn Hlutverk háskólanna í grænu umbreytingunni. Málþingið var haldið á Þjóðminjasafninu og var vel sótt. Hér að neðan má lesa samantekt af málflutningi Dagmarar:

 

Umhverfismál eru mörgum stúdentum ofarlega í huga og hefur Stúdentaráð lengi talað fyrir því að háskólarnir séu leiðandi afl í hinni grænu umbreytingu. Þeir hafa, að okkar mati, öll spilin á hendi og þurfa aðeins að ákveða hvernig þeir vilja spila þeim út. Á tímum heimsfaraldurs og nú jarðhræringa sjáum við greinilega að samfélagið hlustar á fræðafólkið og háskólana, leitar til þeirra. Háskólarnir eru nú þegar leiðandi í allri vísindalegri umræðu og ættu því líka að vera leiðandi í hinni grænu umbreytingu, sem er að öllu leyti byggð á vísindum.

Stúdentaráð hefur lagt ríka áherslu á að háskólarnir búi til þverfagleg námskeið um umhverfismál sem stúdentar úr öllum deildum geta tekið.  Sömuleiðis hefur Stúdentaráð hvatt til þess að umhverfismál séu fléttuð inn í námsefni í ólíkum deildum. Vert er að minnast á að án stúdenta væri enginn háskóli. Námsframboð og aðstaða innan háskólanna verður því að endurspegla vilja stúdenta. Það er vilji til að mennta sig innan umhverfis- og sjálfbærnigeirans og háskólarnir verða að mæta þeirri eftirspurn. Það er vilji til að taka raunveruleg skref í átt að umhverfisvænna háskólasamfélagi – til dæmis með betri samgöngum og háskólarnir verða því að mæta því. Aukinni eftirspurn eftir fjölbreyttara og meira námi á sviði umhverfis- og sjálfbærnimála hefur að einhverju leyti verið svarað hér á landi en alltaf má gera betur. 

Í ljósi sögunnar hafa stúdentar alltaf verið í fararbroddi breytinga, stúdentar eru í eðli sínu róttækir. Stúdentaráð byrjaði t.d. loftslagsverkfallið ásamt fleiri hagsmunafélögum. Einnig hefur Stúdentaráð lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og í tvígang hvatt háskólann til að gera slíkt hið sama en þau virðast rög við það og hafa hingað til vikið sér undan umræðunni. 

Að okkar mati þurfa háskólarnir að fara að setja umhverfismálin í raunverulegt fyrsta sæti. Stimplar hér og þar ásamt einstaka verkefnum duga ekki lengur til. Það þarf að setja bæði meira fjármagn og meiri áherslu á umhverfis- og loftslagsmál – þá bæði innan háskólanna sjálfra sem og í rödd þeirra út á við. Upplifun okkar er sú að umhverfis- og sjálfbærnimál lendi oft aftarlega í forgangsröðinni, verkefni á því sviði séu aðeins unnin ef aukatími gefst eða aukapeningar fást.

Dæmi um forgangsröðun á sviði umhverfismála: einn af fjórum meginstofnum stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, kallast stofn sjálfbærni- og fjölbreytileika. Þessi stofn er m.a. tilkominn vegna þrýstings frá stúdentum. Þetta er samt eini verkefnastofninn sem ekki er með starfsmann á launum við að sinna verkefnum hans. Skýtur það ekki skökku við?

Nauðsynlegt er að fá stúdenta að borðinu í þessari umræðu. Samband stúdenta við stjórnsýslu háskólanna er oft flókið – hvort sem er í námi eða stúdentapólitík erum við aðeins innan háskólanna í stutta stund hverju sinni, sé miðað við starfsfólk sem er hér jafnvel í áratugi. Við viljum sjá hlutina gerast hratt og það er ekki alltaf tekið vel í það. En það er svo margt sem getur gerst hratt. Það eru til dæmis mörg verkefni innan Háskóla Íslands sem undirrituð hefur séð fara  í gegn á sínum tíma í stúdentapólitík – m.a. Matarspor og Miðvegandagar í hámu, strætóskjárinn á háskólatorgi, menntun kennaranema í sjálfbærnifræðum, fyrsta sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands og svo mætti lengi telja. Margt getur gerst hratt og sumt þarf að gerast hægar, en við erum að renna út á tíma. 

Háskólarnir hafa líka tækifæri til að skapa sér sérstöðu á þessu sviði. Í samkeppni við aðra skóla, bæði hérlendis og erlendis, telst framsækni í umhverfis- og loftslagsmálum stórt tækifæri sem vert er að nýta. 

Deila

facebook icon
linkedin icon