1. desember, 2023
1. desember – Dagur stúdenta
Hefð hefur skapast fyrir því að stúdentar haldi upp á 1. desember, fullveldisdaginn. Venju samkvæmt gengu stúdentar að leiði Jóns Sigurðssonar í Hólavallakirkjugarði í morgun og lögðu þar blómsveig ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor og Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu. Stúdentaráð Háskóla Íslands bauð svo stúdentum upp á heitt kakó og smákökur á Háskólatorgi.
Stúdentaráð óskar stúdentum til hamingju með daginn og góðs gengis í verkefnaskilum og prófum!
Forseti Stúdentaráðs, Rakel Anna Boulter, flutti hugvekju til stúdenta í tilefni dagsins sem má finna hér að neðan í heild sinni:
“Stúdentar fagna 1. desember og hafa gert um árabil. Að mínu mati er hagsmunabarátta stúdenta í grunninn sú hugsjón að horfa á háskólasamfélagið út frá sjónarhorni stúdenta. Þetta þýðir ekki endilega að markmiðið sé alltaf að gera stúdentum lífið léttara. Stundum þarf að leggja fram meiri vinnu til að fá betri uppskeru. Það á eins vel við um stúdenta og aðra.
Hagsmunabarátta stúdenta á þó í öllu falli að skila stúdentum meiri ávinningi, hvort sem það er vitsmunalegur ávinningur, gagnrýnin hugsun eða hvað annað. Þetta eru þættir sem ég trúi að smiti út frá sér, skapi betra samfélag og auðvitað betri háskóla.
Nýlega las ég bókina Háskólapælingar eftir Pál Skúlason, sem var rektor við Háskólann Íslands 1997-2005. Þar fjallar hann, á stórskemmtilegan hátt, um þrískipt hlutverk háskóla í síbreytilegu samfélagi. Einfaldað og niðursoðið er hlutverk háskóla að þjóna samfélaginu, sinna rannsóknum og ekki síst að koma stúdentum til alhliða þroska. Þetta er ekki talið upp í nokkurri sérstakri röð enda er ekkert þessara atriða hægt að aðskilja frá hvoru öðru. Það er þó umdeilanlegt hvort eitthvað sé mikilvægara öðru og við því á ég ekki svar.
Heimurinn kemur okkur sífellt á óvart! Það er ómögulegt að ætlast til þess að nútíðin endurspegli framtíðina. Mikið hefur verið fjallað um hættur þess að móta háskóla eftir þörfum atvinnulífsins. Auðvitað er mikilvægt að háskólinn bregðist að einhverju leyti við þörfum samfélagsins, svo lengi sem það er ekki á kostnað þess að hægt sé að bregðast við hinu óvænta.
En getur verið að það sé einmitt markmið háskólans: Að spá í framtíðina? Eða öllu heldur búa sig undir framtíðina, hver sem hún kann að vera? Háskólinn þarf að undirbúa stúdenta sína, svo þau séu í stakk búin til að takast á við allt sem koma skal.
Ég lærði góða lexíu í vor, þegar ég fór með Háskólalestinni vestur á Ísafjörð. Þar sagði mér góður maður að hann færi aldrei í allar fjórar ferðir Háskólalestarinnar á hverju ári. Hann vildi ekki hætta á að verða ómissandi. Auðvitað er ótækt ef einn aðili heldur uppi heilu verkefnunum, þá þarf lítið að koma upp á til að allt fari í vaskinn. Ein persóna er þunnur þráður að hanga á.
Ég held að hlutverk háskóla sé að einhverju leyti að koma í veg fyrir að einn aðili verði ómissandi. Með því að miðla áfram þekkingu til fjölda fólks, verður til net þekkingar þar sem allir hafa sitt hlutverk en enginn er ómissandi.
Til að viðhalda gæðum háskóla þarf stöðugt að spyrja hvað betur má fara. Það er hlutverk stúdenta að taka virkan þátt í umræðunni, velta fyrir sér tilgangi háskóla og hugsjóninni sem liggur þar að baki. Stúdentar eru jú í miklum meirihluta í háskólum almennt.
Innan Háskóla Íslands er löng saga öflugrar hagsmunabaráttu. Stúdentaráð hefur nýverið náð hundrað ára aldri. Á þeim tíma hafa ótal sigrar unnist. Haustið 1934 fluttu fyrstu stúdentarnir inn á stúdentagarða, sem stúdentar söfnuðu fyrir, Félagsstofnun stúdenta var sett á fót 1968 og hefur síðan þá þjónustað stúdenta eftir besta móti. Um miðja síðustu öld var sett á fót námslánakerfi og var það stórt skref í átt að jöfnu aðgengi að menntun. Enn berjumst við fyrir bættu námslánakerfi og er ekki útlit fyrir að þeirri baráttu linni í bráð.
Í dag lítum við yfir farinn veg, sjáum hvað hefur verið gert og fyllumst krafti og metnaði fyrir komandi tíma sem munu bera eitthvað alveg óvænt í skauti sér.
Ég býð ykkur að ganga inn í daginn með þann boðskap að vera ekki ómissandi sjálf, en takið endilega virkan þátt í að skapa kerfi sem hefur það að markmiði að vera ómissandi.”
©Kristinn Ingvarsson tók myndina. Frá vinstri: Rakel Anna Boulter, Rannveig Klara Guðmundssdóttir, Dagmar Óladóttir, Nana-Kirstine Bruhn Rasmussen, Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, Guðmundur Ásgeirsson, Guðni Thorlacius, Júlíus Viggó Ólafsson.
Stjórn Stúdentaráðs er iðulega boðið á Bessastaði á fullveldisdeginum 1. desember. Forseti tók hátíðlega á móti fulltrúum háskólasamfélagsins, rektorum og öðrum stjórnendum auk fulltrúa nemendafélaga í tilefni dagsins.
Frá vinstri: Guðni Thorlacius, Dagmar Óladóttir, Rakel Anna Boulter, Guðni Th. Jóhannesson, Arna Dís Heiðarsdóttir, Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsdóttir og Dagbjört Ósk Jóhannesdóttir.