7. október, 2022

Yfirlýsing Stúdentaráðs um fjármögnun almenningssamgangna og innleiðingu U-passa fyrir stúdenta

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir áhyggjum af stöðu almenningssamgangna á Íslandi og þess krafist að íslenska ríkið tryggi stóraukið fjármagn í málaflokkinn strax, í rekstur almenningssamgangnanna og í innleiðingu U-passa fyrir stúdenta.

Stúdentaráð gagnrýnir að ríkisstjórnin hafi varið níu sinnum meira fé í niðurgreiðslu rafbílakaupa en til reksturs Strætó bs. Þessi dýrasta loftslagsaðgerð stjórnvalda gagnast helst efnameiri hópum samfélagsins. Efling almenningssamgangna er bæði nauðsynleg og réttlát loftslagsaðgerð sem felur í sér bætt kjör og tækifæri fyrir almenning. Einkum og sér í lagi fyrir tekjulægri hópa, svo sem ungt fólk og stúdenta sem nota almenningssamgöngur í meira mæli en tekjuhærri hópar.  

Stúdentaráð kallar eftir aðkomu ríkisins við að verða láta U-passa verða að veruleika, en U-passi er samgöngukort á hagstæðu verði fyrir stúdenta, sem Stúdentaráð hefur lengi talað fyrir og sækir fyrirmynd sína til Evrópu. Slík útfærsla er þegar til skoðunar hjá Háskóla Íslands og hafa viðræður við Strætó átt sér stað. Hins vegar er ljóst er að til þess að U-passinn geti orðið að veruleika þarf pólitískan vilja og fjármagn, bæði frá ríki og sveitarfélögum.

Það verður að vera raunhæfur valkostur fyrir stúdenta að komast á milli staða á skilvirkan hátt, bæði hratt og örugglega án óþarfa kostnaðar fyrir fólk og umhverfi. Ríkisstjórnin þarf að auka fjárframlög til málaflokksins strax, með það að leiðarljósi að bæta þjónustu og gera almenningssamgöngur að hagkvæmari kosti, meðal annars með innleiðingu U-passans. Hér er um að ræða réttláta loftslagsaðgerð sem hefur áhrif í þágu samfélagsins alls.

Yfirlýsingin hefur verið send á fjármálaráðherra og forsætisráðherra og má finna hana í heild sinni á student.is, hér.

Deila

facebook icon
linkedin icon