1. ágúst, 2023

Vilt þú vinna við Stúdentablaðið?

Stúdentablaðið leitar að öflugum pennum og öðrum sem vilja taka þátt í að ritstýra, skrifa greinar, þýða, prófarkalesa og taka ljósmyndir fyrir blaðið á komandi skólaári.

Í Stúdentablaðinu er að finna greinar og viðtöl um allt milli himins og jarðar sem varðar málefni stúdenta. Blaðið kemur út fjórum sinnum á árinu, þ.e. tvisvar á önn. Áhersla er lögð á fjölbreytt efnisval, réttindabaráttu stúdenta og aðkomu þeirra að gerð blaðsins og því er mikilvægt að sem breiðastur hópur blaðamanna og ritstjórnarmeðlima komi að blaðinu. Vinna við Stúdentablaðið er dýrmætt tækifæri til að öðlast reynslu af gerð blaða og getur komið sér mjög vel við atvinnuleit í framtíðinni. Athugið að um sjálfboðastarf er að ræða.

 

Stúdentablaðið leitar að fólki í eftirfarandi hlutverk:

  1. Ritstjórn – Meðlimir ritstjórnar Stúdentablaðsins funda vikulega, móta stefnu blaðsins ásamt ritstjóra og skrifa greinar í blaðið.
  2. Blaðamenn – Blaðamenn Stúdentablaðsins funda tvisvar á misseri og skrifa greinar í blaðið, bæði eftir eigin höfði og eftir óskum frá ritstjórn.
  3. Þýðendur – Þýðendur Stúdentablaðsins þurfa að hafa mjög gott vald á bæði íslensku og ensku. Stefna Stúdentablaðsins er að þýða allt efni sem gefið er út á vegum blaðsins og því leitum við að öflugu teymi þýðenda.
  4. Prófarkalesarar – Prófarkalesarar Stúdentablaðsins þurfa að hafa mjög gott vald á íslenskri tungu og geta lesið greinar yfir með tilliti til málfars, uppsetningar og stafsetningar.
  5. Ljósmyndarar – Ljósmyndarar taka myndir sem birtast með greinum í blaðinu og á vefsíðu þess. Viðkomandi þarf að vera sveigjanlegur og þarf að hafa aðgang að góðri myndavél.

 

Stúdentablaðið er málgagn allra stúdenta við HÍ og nemendur úr öllum deildum skólans eru hvattir til að sækja um. Áhugasöm eru hvött til að senda póst fyrir 15. ágúst næstkomandi á netfang Stúdentablaðsins, studentabladid@hi.is.

Vinsamlegast látið kynningarbréf og sýnishorn af fyrri skrifum fylgja með umsókninni ef um starf blaðamanns er að ræða.

Deila

facebook icon
linkedin icon