7. maí, 2022

Viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og Félagsstofnunar stúdenta vegna íbúðarhúsnæðis fyrir stúdenta

Í gær skrifuðu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, og Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir stúdenta í Reykjavík á næstu árum.

Viljayfirlýsingin er fyrir allt að 239 íbúðir á fjórum þróunarlóðum sem eru Skerjafjörður II, Vesturbugt, Miklubrautarstokkur og U-reitur (BSÍ), ásamt lóðavilyrði við Vatnsstíg. Reykjavíkurborg hefur þegar veitt vilyrði fyrir allt að 110 íbúðum í Skerjafirði I og því eru alls vilyrði og viljayfirlýsing fyrir allt að 361 íbúð. Stúdentaráð fagnar viljayfirlýsingunni og þakkar fyrir það góða samstarf sem það á við Reykjavíkurborg og Félagsstofnun stúdenta.

Skerjafjörðurinn er mikilvæg staðsetning fyrir stúdenta en þar áætlar Félagsstofnun að byggja húsnæði undir fjölskylduíbúðir. Nú þegar eru slíkar íbúðir á háskólasvæðinu og í Fossvoginum, en fjölgun þeirra mun án efa verða til þess að fleiri foreldrum í námi og börnum þeirra geti búið við húsnæðisöryggi. Ekki eru áætlanir um byggingu nýs húsnæðis inni á sjálfu háskólasvæðinu og því er með þessu móti verið að tryggja íbúðir fyrir stúdenta í grennd við háskólann og á sama tíma verið að stuðla að þéttari, samheldnari og sjálfbærari byggð. Nauðsynlegt er að uppbygging nýs hverfis í Skerjafirði sé áfram á áætlun og tafir séu litlar sem engar.

Það eru grundvallarréttindi fólks að eiga þak yfir höfuðið og er það jafnframt lykilatriði í að tryggja jafnt og hindranalaust aðgengi að menntun. Uppbygging stúdentaíbúða verður að eiga sér stað jafnt og þétt þannig að hægt sé að halda í við eftirspurnina og koma í veg fyrir húsnæðisskort til framtíðar. Á það sérstaklega við núna þegar skipulags- og samgöngumál eru í forgrunni hjá borgaryfirvöldum og háskólayfirvöldum.

Stúdentaráð hefur í þessu samhengi einnig farið fram á viljayfirlýsingu milli Félagsstofnunar stúdenta, Stúdentaráðs og Háskóla Íslands þess efnis að Stapi verði nýttur undir stúdentaíbúðir þegar starfsemin sem þar er flyst í annars vegar Sögu og hins vegar í nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs. Stúdentaráð telur bæði viljayfirlýsinguna og Stapa vera skref í átt að því heildstæðara háskólasamfélagi sem stúdentar leggja áherslu á.

Deila

facebook icon
linkedin icon