7. mars, 2024

Umferðin og okkar daglega líf

Þann 14. febrúar sl. stóðu Vísindagarðar Hí fyrir viðburði undir yfirskriftinni Umferðin og okkar daglega líf. Viðburðurinn er sá fyrsti af þremur viðburðum sem haldnir eru til að efla til samtals um samgöngur, horfa til framtíðar og fjölbreyttra lausna. Rakel Anna Boulter, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands flutti þar eftirfarandi ávarp.

 

Árlega er nýtt Stúdentaráð kosið og hafa þá allir nemendur við skólann tækifæri til að velja sér fulltrúa. Þetta kunna einhverjum að finnast ör skipti, en það sem þessar tíðu skiptingar gera að verkum er að árlega eru málefni stúdenta, innan sem og utan háskólans, til umræðu.

Síðustu ár hefur eitt helsta umræðuefni meðal stúdenta verið samgöngu- og bílastæðamál. Það er ekkert furðulegt, einhvern vegin verður allt þetta fólk að komast á milli staða.
Það eru 13.225 stúdentar í HÍ. Við getum gert ráð fyrir að einhver sé í fjarnámi og ofan á það einhver slatti sem mæta í tíma utan Vatnsmýrarsvæðisins, annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Gefum okkur að alls séu þetta svona 30% sem mæta ekki í tíma á Vatnsmýrarsvæðinu. Það eru ennþá rúmlega 9.000 nemendur að mæta á háskólasvæðið. Gefum okkur að um 70% nemenda mæti daglega, sem eru þá 6.500 á dag, það er ennþá heilmikill fjöldi sem kemur inn og út af svæðinu daglega.

Háskólinn á u.þ.b. 1700 bílastæði, það nær ekki sérlega langt ef við skoðum töluna sem við vorum með áðan, 6.500 nemendur. Vel á minnst þá er háskólinn líka þriðji stærst vinnustaður á landinu, svo ofan á þessa 6.500 nemendur sem við gerum ráð fyrir að komi daglega – bætast kannski um 2000 starfsmenn háskólans í hópinn.

Einn annar þáttur sem er mikilvægt að minnast á. Þið munið eftir hópnum sem ég minntist á áðan að væru að mæta í skólann utan Vatnsmýrarsvæðisins. Menntavísindasvið, sem er stór hluti þess hóps, er að flytja á sögu næsta haust, svo þá verða þetta enn fleiri.

Ef háskólinn ætlaði að gera bílastæði fyrir allt þetta fólk yrðum við að breyta öllum flugvellinum í bílastæði. Megin punkturinn er að það er ekki pláss fyrir 8000 bílastæði í Vatnsmýrinni.

Vandamálið er þetta: hér er of mikið af bílum og ekki pláss fyrir fleiri.

Þetta á ekki aðeins við um: að það sé ekki pláss á bílastæðum. Vandamálið snýr ekki síður að umferðinni sem myndast hérna þegar, á hálftíma við upphaf dags og hálftíma í lok dag, allir þessir bílar fá sömu hugmyndina um að koma og fara.

Nú hugsa sum ykkar eflaust: það þurfa ekki öll að koma á bílum, við getum öll valið milli samgöngumáta.

En hvaða vali standa stúdentar raunverulega frammi fyrir núna?

Ef við skoðum samanburðinn einn dag í einu: Miði aðra leið í strætó kostar 630 kr., (enginn stúdentaafsláttur á miða eina ferð, bara á mánaðar- og árskortum). Báðar ferðir kosta þá 1.260 kr.

Ef þetta er borið saman við að fá bíl í láni hjá mömmu og pabba og leggja frítt bílastæði er varið borðleggjandi.

Ef við gefum okkur að öll stæði séu full og þú þurfir að leggja í einu gjaldskyldu svæðin á háskólasvæðinu, U svæðið beint fyrir framan Aðalbygginguna. Þar kosta 220 kr á klukkutímann að leggja. Þú þarft því að leggja þar í 6 klukkustundir til að það sé ódýrara að koma með strætó. 8 tímar eru á 1.760, sem er minna en þrjár stakar ferðir í strætó.

Ef við skoðum samanburð til lengri tíma sjáum við að árskort fyrir nema í strætó er 52.000 kr. og 30 daga kort fyrir nema 5.200 kr. Aftur, ef valið stendur á milli þessarar upphæðar og að fara á bíl mömmu og pabba og leggja frítt er þetta ekki flókið reikningsdæmi.

Auðvitað er það ekki valmöguleiki allra stúdenta að geta fengið bíl foreldra í láni daglega. en niðurstaðan er sú að almenningssamgöngur eru ekki samkeppnishæfur valkostur, eins og er. Það er lítið sem hvetur til annars en að koma á einnkabíl.

Hvað getum við gert?

Reykjavík er lítil og ung. Það hlýtur einhver önnur borg að hafa staðið frammi fyrir svipuðum vanda… Af hverju er verið að finna upp hjólið í Reykjavík árið 2024?

Við stúdentar hugsuðu með okkur, hvernig eru stóru borgirnar að gera þetta? Þá fundum við fyrirbæri sem er samgöngukort niðurgreitt af háskólanum, þetta kallast University pass, sem við þýddum sem umhverfispassa og köllum U-passa.

Stúdentaráð hefur í þónokkur ár lagt áherslu á að slíku fyrirkomulagi verði komið á í Háskóla Ísland og að passinn verði á viðráðanlegu verði fyrir stúdenta. Við höfum velt upp hugmyndum um að fjölbreyttari samgöngumátar falli þarna undir, hopp hjólin góðu, jafnvel hoppbílarnir líka… hvað sem er!

Háskólinn hefur sýnt þessari hugmynd áhuga. Skólinn stendur frammi fyrir sínu eigin vandamáli, sem er að hellings peningur er að fara í að niðurgreiða bílastæðinn 1.700 sem ég minntist á áðan. Bílastæði á dýrasta svæði á landinu er nefnilega ekkert frí, þó að það sé ekki gjaldskylda þar. Það er bara einhver annar að borga fyrir bílastæðin. Í þessu tilfelli háskólinn.

Áðan sagði ég að vandamálið væri að hér væri of mikið að bílum og ekki pláss fyrir fleiri, en kannski er raunverulega vandamálið að háskólinn er ekki tilbúinn að bjóða stúdentum upp á raunverulegt val með því að niðurgreiða fjölbreyttar samgöngur.

Það er þó ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að breytingum fylgir áhætta. Nú þegar sjáum við að færri eru að mæta í skólann, samfélagið hefur ekki almennilega náð sér að sama marki og það var fyrir covid. Þetta er fjölþátta spurning, hvers vegna nemendur eru að mæta minna í skólann. Eru þetta úreltar kennsluaðferðir, aðstaðan á háskólasvæðinu eða erfiðleikar við að komast á milli staða? Eflaust allt í bland.

Við viljum hafa blómlegt háskólasvæði hérna, vísindamiðju, þar sem fólk vill koma og sækja sér þekkingu og reynslu áður en það heldur út í hinn stóra heim.

Við þessu þurfum við að finna lausn í sameiningu. Ég veit ekki hver lausnin er, en ég veit að hún er ekki að byggja 8000 bílastæði til viðbótar.

Að lokum langar mig að minnast á stúdentagarðana og íbúendasamfélagið hérna í Vatnsmýrinni. Stúdentaráð hefur löngum lagt ríka áherslu á að hér verði búið til heildrænt campus svæði þar sem stúdentum yrði gert kleift að sækja grunnþjónustu í sínu nærumhverfi, t.d. lágvöruverslun, heilsugæslu, apótek og jafnvel vínbúð. Þetta hefði heilmikil og jákvæð áhrif á svæðið.

Ég þakka kærlega fyrir mig og vil gefa skipuleggjendum þessa ágæta viðburðar sérstakt hrós. Takk fyrir að efla til þessarar mikilvægu umræðu.

Deila

facebook icon
linkedin icon