31. október, 2023

Saga skrásetningargjaldsins

Hér að neðan má lesa samantekt um sögu skrásetningargjaldamálsins, upphaf þess og helstu þætti. 

Háskólinn óskar eftir hækkun skrásetningargjalda – stúdentar mótmæla

Þann 6. febrúar 2020, á fundi háskólaráðs, var rætt um hækkun skrásetningargjaldsins við HÍ úr 75.000 kr. í 104.000 kr. fyrir árið 2020 og í 107.000 kr. fyrir árið 2021. Háskólaráð taldi upphæðina eiga að vera hærri miðað við forsendur fjárlaga um verðhækkanir. Öll í háskólaráði, utan fulltrúa stúdenta, greiddu atkvæði með tillögunni. Háskólaráð faldi rektor því að taka málið upp við rektora annarra opinberra háskóla og mennta- og menningarmálaráðherra. 

Þann 26. febrúar 2020 sendir Stúdentaráð frá sér yfirlýsingu, sem ráðið samþykkti einróma. Í yfirlýsingunni kemur fram að Stúdentaráð leggist afdráttarlaust gegn hækkun skrásetningargjalda við Háskóla Íslands, ráðið dregur fram að fjárframlög ríkisins til háskóla þurfi að hækka og að ekki sé rétt að sækja það fé sem vantar í vasa stúdenta.

25. janúar 2021 sendi Stúdentaráðs frá sér erindi þar sem óskaði var eftir viðbrögð stjórnvalda við fjárhagsstöðu stúdenta. Þar undirstrikaði ráðið afstöðu sína gegn skrásetningagjaldinu.

 

Nemandi kærir skrásetningargjaldið

Þann 25. ágúst 2021 kærir fyrrum hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs og nemandi við Háskóla Íslands, Jessý Jónsdóttir, skrásetningargjaldið til háskólaráðs. Kærandi telur gjaldið ekki standast lagaáskilnaðarreglu um þjónustugjöld eða að ákveðnir kostnaðarliðir þess standist lög um opinbera háskóla nr. 85/2008.

 

Háskólaráð taldi gjaldið löglegt

Þann 7. október 2021 hafnaði Háskólaráð kærunni að öllu leyti, ráðið taldi gjaldið réttmætt og rúmast innan lagarammans.

Á Stúdentaráðsfundi 18. maí 2022 samþykkti Stúdentaráð heildarstefnu ráðsins þar sem tekið er fram að ráðið efist um lögmæti skrásetningagjaldsins.

 

Úrskurður háskólaráðs felldur úr gildi

Niðurstaða háskólaráðs var kærð til áfrýjunarnefnd kærumála háskólanema þann 15. nóvember 2021. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar (8/2021 A gegn Háskóla Íslands) barst þann 19. ágúst 2022, nefndin felldi ákvörðun háskólaráðs úr gildi. Ástæðan var sú að nefndin taldi háskólaráð ekki byggja útreikninga sína á raunverulegum kostnaði. Háskólaráð notaðst við útreikninga frá árinu 2015. Áfrýjunarnefndin krafði háskólaráð um að endurskoða kostnaðarliðina, samkvæmt rauntölum, og gera grein fyrir þeim.

 

Háskólaráð hafnar kröfunni, aftur

Þann 8. september 2022 óskar kærandi, Jessý Jónsdóttir, eftir endurupptöku málsins hjá háskólaráði.

Þann 3. nóvember 2022 sendi Stúdentaráð Háskóla Íslands frá sér yfirlýsingu í kjölfar brots háskólaráðs á stjórnsýslulögum við ákvörðun á skrásetningargjaldi.

Síðar þann 3. nóvember 2022 hafnar háskólaráð kröfu Jessýjar í annað sinn. Öll í háskólaráði, utan fulltrúa stúdenta, kusu með þessari endurskoðuðu ákvörðun háskólaráðs vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar. Á fundinum tóku fulltrúar stúdenta í háskólaráði undir yfirlýsingu Stúdentaráðs sem birt hafði verið fyrr um daginn. Fulltrúarnir nefndu að eðlileg vinnubrögð fælu í sér að taka skrásetningargjaldið fyrir árlega og þannig ganga úr skugga um að forsendur þess hafi ekki breyst áður en það er innheimt.

Í kjölfarið hélt Stúdentaráð umræðufund þann 23. nóvember 2022 um skrásetningargjaldið.

Háskóli Íslands vill hækka skrásetningjargjöldin, aftur

Á fundi háskólaráðs þann 8. desember 2022 var tilkynnt að rektor hefði, ásamt rektorum hinna opinberu háskólanna, sent bréf til háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra þar sem óskað var eftir heimild til hækkunar skrásetningargjalda í 95.000 kr. Fulltrúar stúdenta í háskólaráði gagnrýndu harkalega áform um hækkun skrásetningargjaldsins og að þau áform hefðu ekki verið borin undir háskólaráð áður. 

Þann 14. desember 2022 sendi Stúdentaráð Háskóla Íslands frá sér yfirlýsingu vegna undirfjármögnunar Háskóla Íslands og umræðna um hækkun skrásetningargjalda þar sem fjallað var um tengsl vanfjámögnunar háskólastigsins og hækkunar skrásetningargjaldsins.

 

Úrskurður háskólaráðs felldur úr gildi, aftur

Kæra (4/2022) barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema þann 17. nóvember 2022 og nefndin skilaði úrskurði þann 5. október 2023. Áfrýjunarnefndin felldi þar með úr gildi ákvörðun háskólaráðs, sem hafnaði endurgreiðslu skrásetningargjalds til Jessýjar Jónsdóttur, nemanda. Áfrýjunarnefndin telur framkvæmdina ekki eiga sér lagastoð. Enn fremur segir í úrskurðinum að  „grundvöllur fyrir innheimtu skrásetningargjalds HÍ, eins og hann liggur fyrir í dag, sé ekki fullnægjandi og brjóti þannig gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins“.

 

Stúdentaráð krefst endurgreiðslu

Þann 26. október 2023 sendi Stúdentaráð Háskóla Íslands frá sér erindi þar sem endurgreiðslu ólögmætra skrásetningargjalda er krafist. Þess er krafist að Háskóli Íslands endurgreiði öllum þeim sem greitt hafa skrásetningargjöld við skólann síðan árið 2014.

Deila

facebook icon
linkedin icon