11. april, 2022

Niðurstöður sjöttu könnunar Stúdentaráðs um líðan og stöðu stúdenta við Háskóla Íslands á tímum COVID

Sjötta könnun Stúdentaráðs var send út þann 7. febrúar til allra stúdenta við Háskóla Íslands. Það höfðu 843 stúdentar tekið könnunina þegar henni lauk þann 14. febrúar, en 15.258 nemendur eru skráðir við Háskólann. Spurt var um persónuhagi, líðan og kennslumál, bæði á á íslensku og ensku en spurningarnar voru 27 talsins. 

Líkt og með fyrri könnunum var markmiðið að kanna áhrif kórónuveirufaraldursins á líðan og námsframvindu nemenda við Háskóla Íslands. Þannig er hægt að fá betri sýn á aðstæður og dregið betur fram leiðir til úrbóta. 

Niðurstöðurnar sýna að aðstæðurnar vegna COVID reynist áfram erfiðar fyrir stúdenta en stafar það aðallega af lítilli tengslamyndun við samnemendur, aukinni rafrænni kennslu og álaginu sem því fylgir. Meirihluti stúdenta vill frekar geta mætt í húsakynni skólans og ljóst er að takmarkað félagslíf hefur haft áhrif á andlega líðan þeirra. Upplifun stúdenta hefur þannig breyst úr því að finna fyrir óöryggi vegna COVID í að hafa áhyggjur af því að hafa ekki góða stjórn á námi og hvernig þær aðstæður hafi áhrif á geðheilsu.

Mikilvæg atriði sem draga má af niðurstöðum:

  • 56% segja rafræna kennslu hafa hentað mjög vel eða frekar vel.
  • Af þeim sem eru í rafrænu námi telja 34.74% að það gangi mjög vel að nota fjarskipta forrit og 42.82% frekar vel.
  • Af þeim sem eru í rafrænu námi telja 18.41% að kennsluaðferðir kennara séu mjög góðar og 44,51% telja þær frekar góðar.
  • 75.96% stúdenta af félagsvísindasviði eru mjög sammála því að sjúkra- og endurtökupróf, vegna lokaprófa haustmisseris, fari fram í janúar.
  • 25.39% telja það hafa gengið mjög illa að kynnast samnemendum á haustmisseri 2021.
  • 32.03% segja rafræna kennslu hafa haft frekar mikil áhrif á líðan, á skalanum mjög mikið til mjög lítið.
  • 53.85% merkja líðan sína 5 eða hærri á skalanum 0-10.
  • 63.58% upplifa streitu og/eða álag sem þau telja að hafi mjög mikil eða frekar mikil áhrif á námið.
  • 61,4% sögðu rafræna kennslu hafa haft ýmist mjög neikvæð áhrif eða neikvæð áhrif á áhuga og getu til að tileinka sér námið. 27,2% sögðu rafræna kennslu hafa haft jákvæð áhrif.

 

Könnunina má í heild sinni finna hér. 

Deila

facebook icon
linkedin icon