9. febrúar, 2024

Léleg námslán eru pólitísk ákvörðun

Árið 2020 voru sett ný lög á Alþingi sem felldu úr gildi gamla Lánasjóð Íslenskra námsmanna (LÍN) og komu á fót nýju kerfi, Menntasjóði námsmanna (MSNM). Ákveðið var að lögin yrðu endurskoðuð eftir haustþing 2023 og sú vinna er nú í fullum gangi. 

Út hefur komið skýrsla unnin af Háskólaráðuneytinu um mat á endurskoðun laga um MSNM. Hér eru talin upp þau atriði sem Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) telur nauðsynlegt að breyta á vorþingi 2024 til þess að stíga raunverulegt skref í átt að bættum kjörum stúdenta. 

Flestir stúdentar þekkja vel þá tilhugsun að vilja forðast námslán ef hægt er, en það á ekki að vera svoleiðis. Markmið námslána er að tryggja jafnt aðgengi að námi. Stjórnvöld geta auðveldlega skapað kerfi þar sem námslán eru ekki glötuð.

LÆKKUM VAXTAÞAKIÐ
Vextir á lánum sem MSNM veitir geta núna hæst orðið 4% af verðtryggðum lánum og 9% af óverðtryggðum lánum. 

VAXTAÞAK Á AÐ VERA STYRKUR
Lengst af fólst styrkur ríkisins til námsmanna í því að veita lán með lágum vöxtum. Þetta var það sem aðskildi námslán frá öðrum lánum og gerði það að verkum að námslán fólu í sér bestu kjörin. 

BREYTT EN EKKI BÆTT
Með lögunum 2020 var 30% niðurfellingu á höfuðstól bætt við en vextirnir hækkuðu gríðarlega í kjölfarið. Þetta fól ekki í sér raunverulega aukningu á styrk til stúdenta á Íslandi. Raunar kemur fram í skýrslunni sem háskólaráðuneytið gaf út árið 2023 að í mörgum tilvikum veita nýju lögin lakari kjör heldur en gamla kerfið. 

ÓREGLULEGT VAXTAUMHVERFI
Á Íslandi er verulega sveiflukennt vaxtaumhverfi, sem hefur í för með sér að þau sem taka námslán hafa aðeins litla hugmynd um þá vexti sem þau koma til með að greiða af lánunum. Vextirnir éta upp niðurfellinguna, svo styrkur ríkisins dregst verulega saman. Þessa óvissu verður að takmarka. 

GETUM VIÐ EKKI ÖLL VERIÐ SAMMÁLA?
Í skýrslunni um endurskoðun laga MSNM hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið bent á að þörf sé á að minnka vaxtaáhættu námsmanna að námi loknu. Þá hefur framkvæmdastjóri MSNM velt því upp hvort ástæða geti verið til að lækka vaxtaþakið í erindi til háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins, enda draga háir vextir námslána úr hvata til þess að sækja stuðning til ríkisins til þess að stunda nám og hafi jafnvel beinlínis fælandi áhrif. 

STÚDENTAR VISSU ÞETTA ALLTAF
Þegar verið var að breyta námslánakerfinu var ekki gert ráð fyrir neinu vaxtaþaki til að byrja með. Það var ekki fyrr en að stúdentar bentu á að það væri óásættanlegt í svo óreglulegu vaxtaumhverfi. Þetta er eitt dæmi um það hve mikilvægt er að stjórnvöld hlusti á ábendingar stúdenta, því að við erum hópurinn sem notar námslánakerfið.

STÚDENTAR EIGA EKKI AÐ GREIÐA VAXTAÁLAG
Stúdentar hafa frá upphafi mótmælt harðlega vaxtaálagi námslána. Íslenska ríkinu tókst að standa undir afföllum námslána í u.þ.b. 70 ár þar til ný lög um MSNM tóku við. Það er pólitísk ákvörðun stjórnvalda að varpa því yfir á stúdenta. Vaxtaálagið eykur áhættu stúdenta, líkt og fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur bent á. Það er einfaldlega ekki réttlætanlegt að ríkið láti stúdenta bera kostnaðinn af vanskilum annarra lántaka.

VEITUM 40% NIÐURFELLINGU EFTIR HVERJA ÖNN
Núna getur þú fengið 30% niðurfellingu á höfuðstól námsláns ef þú útskrifast á réttum tíma. Stúdentaráð leggur til að námsstyrkur hækki úr 30% í 40% að norskri fyrirmynd. Í Noregi er námsstyrkur veittur í formi 25% niðurfellingu á höfuðstól láns í lok hverrar annar. Styrkurinn fæst þó einungis fyrir þær einingar sem eru loknar og það skapar því hvata til þess að ljúka námi. Til viðbótar er veitt 15% niðurfelling við námslok í Noregi. 

ÓVISSA
Í núverandi kerfi getur stúdent ekki vitað fyrir víst hvort hann fái 30% niðurfellingu fyrr en að námi loknu. Slík óvissa er bæði fráhrindandi, streituvaldandi og fælandi frá háskólanámi. Uppfylli lántaki ekki skilyrði um námsframvindu til þess að hljóta niðurfellingu af höfuðstól eru endurgreiðslukjör í flestum tilfellum jafn slæm og afíbúðalánum. 

NÝJA KERFIÐ MISHEPPNAÐ
Vegna óvissu um vexti og mögulega niðurfellingu getur hljómað skynsamlegra fyrir stúdenta að vinna meðfram skóla, þrátt fyrir að það geti haft slæm áhrif á námsárangur, námshraða og geðheilsu, svo eitthvað sé nefnt. 

GAGNSÆI
Ef hluti niðurfellingarinnar myndi berast mánaðarlega gætu stúdentar séð námsstyrkinn jafnóðum. Þá væri líka minni áhætta ef eitthvað kæmi upp á sem yrði til þess að þú þyrftir að seinka náminu.

JAFNRÉTTI
Fjölskyldufólk, nemendur með námsörðugleika eða annað móðurmál en íslensku er líklegra til að þurfa að fresta námi eða taka námshlé af einhverjum ástæðum. Í núverandi kerfi er fólk sem tilheyrir þessum hópum því ólíklegra til að njóta námsstyrkja frá ríkinu. Hvar er jafnréttið í því? 

HÆRRI STYRKUR
Með 40% niðurfellingu væri ríkið að veita hærri styrk til stúdenta. Háskólanám verður þannig betri valkostur fyrir stúdenta, fjölbreytari hópur hefur aðgang að menntun sem hefur einungis jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og íslenskan efnahag. 

LÁNUM FYRIR HVERRI EININGU
Á Íslandi þurfa stúdentar að vera skráðir í 22 einingar a.m.k. til að fá námslán. Ef þú stendst ekki námsmat í öllum 22 einingunum þarftu að endurgreiða allt lánið samstundis.

Í Noregi eru hvorki tímamörk né kröfur um lágmarksfjölda eininga hverja önn til þess að hljóta 25% niðurfellingu á höfuðstól láns. Niðurfellingin fæst einungis fyrir loknar einingar, en lántakendur hljóta engu að síður lán fyrir öllum einingum sem teknar eru, óháð námsárangri. 

FJÖLBREYTTIR NÁMSMENN
Mismunandi nám hentar mismunandi fólki. Stúdentar eru ólíkir og búa við ólíkar aðstæður. Mikilvægt er að námslánakerfið styðji við alla stúdenta án mismununar. Núgildandi fyrirkomulag útilokar þau sem hafa ekki tækifæri til að taka meira en 22 einingar.

VERRI NÁMSLÁN FYRIR VERRI NÁMSMENN
Ef stúdent fellur í einum 10 eininga áfanga á hann ekki lengur rétt á námslánum og gæti þurft að endurgreiða allt lánið þá önnina. Við viljum að það yrði lánað fyrir hverri einingu, svo stúdentar gætu fengið lán fyrir þeim einingunum sem þau taka, sama hvort þau falli eða standist námsmat. 

HÖFUM VIÐ EFNI Á ÞVÍ AÐ GERA ÞETTA EKKI BETUR?
Námslánakerfi sem nær ekki markmiðum sínum um jöfn tækifæri til náms og að liðka fyrir námsframvindu hefur í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð og samfélagið. Tengslin á milli himinhárrar atvinnuþátttöku íslenskra stúdenta og lágrar framvindu við háskólanám gefa auga leið. Af þessu skapast hár rekstrarkostnaður sem bætist við þann fjárhagslega og ófjárhagslega kostnað sem hlýst af ójöfnum tækifærum til náms og lágu menntunarstigi. Við höfum ekki efni á því að vera lengur með eitt lægsta menntunarstig sem þekkist í OECD-löndunum.

 

Hér hefur aðeins verið talinn upp hluti af ábendingum stúdentaráðs, en ráðið sendi frá sér skýra stefnu í tengslum við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna, sem hægt er að nálgast hér.  

Deila

facebook icon
linkedin icon