17. september, 2021

Kosningaáherslur flokka í málefnum stúdenta

Í tilefni alþingiskosninga 25. september nk. hefur Stúdentaráð staðið fyrir herferðinni Stúdentar eiga betra skilið en hún snýst um að það þurfi að ráðast í markvissar aðgerðir til að tryggja stúdentum fjárhagslegt öryggi til frambúðar. Um er að ræða áframhald herferðar Stúdentaráðs frá janúar 2021 „Eiga stúdentar ekki betra skilið?. Stúdentaráð hefur frá byrjun árs 2020 talað fyrir aðgengi stúdenta að atvinnuleysistryggingakerfinu, endurbótum í námslánakerfinu og atvinnu- og tekjuöryggi stúdenta, sem hefur verið byggt á fjölþættum upplýsingum og gögnum sem Stúdentaráð hefur stutt sig við og jafnvel aflað sjálft, þar sem gögn skorti. 

Stúdentaráð hefur staðið fyrir alls sjö könnunum, ýmist eitt síns liðs eða í samstarfi við aðra, um stöðu stúdenta á vinnumarkaði og andlega líðan, skilað inn sjö umsögnum til Alþingis sem varða breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og aðgerðir til að draga úr tjóni kórónuveirufaraldursins, ályktanir og umsagnir vegna Menntasjóðs námsmanna fyrir lögfestingu og fjölda erinda, krafna, áskorana og yfirlýsinga. 

Vegna þessa hefur Stúdentaráð tekið saman yfirlit yfir þau atriði í stefnum stjórnmálaflokkanna sem varða málefni stúdenta. Samantektin tekur mið af kosningaáherslum og/eða kosningastefnum flokkanna fyrir komandi kosningar sem þeir hafa gefið út, en ekki almennum stefnum þeirra. Markmiðið var að kanna hvort flokkarnir hafi tekið tillit til áherslna stúdenta og stúdentahreyfinganna og ætli sér að stíga framfaraskref í þeim tilteknu málaflokkum á næsta kjörtímabili.

Málaflokkarnir sem voru skoðaðir varða einungis námsfólk á háskólastigi með hliðsjón af áherslum stúdentahreyfinganna. Málaflokkarnir eru fjármögnun háskólastigsins, aðgengi að menntun, kennsla, nám og rannsóknir, námslánakerfið, aðgengi námsfólks að atvinnuleysistryggingakerfinu, húsnæðismál, geðheilbrigðismál og foreldrar í námi. 

Samantektina má finna hér.

Það veldur vonbrigðum að málefnum stúdenta sé ekki gefin meiri gaumur en raun ber vitni og að ekki sé brýnt á bættri fjármögnun háskólastigsins, sem er forsenda þess að háskólar geti sinnt grunnstarfsemi sinni og þjónustu. Einnig þykir okkur miður að sjá að ákveðnir flokkar hafa ekki séð sér fært að uppfæra grunnstefnu sína í menntamálum, sem hefur staðið óbreytt árum saman og tekur því ekki mið af stöðunni eins og hún er í dag. Við fögnum því þó að kröfur stúdenta hafi hlotið nokkurn meðbyr og þau málefni sem bar hvað mest á í gegnum faraldurinn hafa jafnvel ratað í kosningastefnur flokka. Það dugir þó ekki til. Málefni stúdenta þurfa að vera hluti af heildarstefnu flokkanna og það þarf að tryggja þeim áframhaldandi athygli og stuðning að kosningum loknum.Að lokum ítrekar Stúdentaráð að samantektin byggir á kosningaáherslum- og/eða kosningastefnum stjórnmálaflokkanna, enda endurspegla þær þau mál sem flokkarnir leggja mestan þungan á fyrir næsta kjörtímabil.

 

Séu athugasemdir vegna samantektarinnar skal hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs (shi@hi.is).

 

Deila

facebook icon
linkedin icon