11. april, 2021

Kjörfundur Stúdentaráðs 21. apríl 2021

Kæru stúdentar Háskóla Íslands

Kosningar til Stúdentaráðs eru yfirstaðnar og má nálgast niðurstöður kosninga hér.
Í kjölfar kosninga kýs Stúdentaráð sér fulltrúa til starfa á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs, ásamt því að kjósa í önnur embætti ráðsins á sérstökum kjörfundi. Kjörfundur verður haldinn 21. apríl 2021 kl. 17:00 á Teams. Fundir Stúdentaráðs eru opnir öllum skv. a-lið 9. gr. laga Stúdentaráðs. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is.

Dagskrá fundarins má finna hér.

Mögulegt er að gefa kost á sér í embætti forseta, varaforseta, hagsmunafulltrúa og lánasjóðsfulltrúa á skrifstofu Stúdentaráðs, í nefndir Stúdentaráðs og önnur embætti á vegum Stúdentaráðs. Þau sem kjörin eru á kjörfundi taka við störfum á skiptafundi, sbr. 4. gr. laga Stúdentaráðs. Kjörgengir til þessara embætta eru öll þau sem hafa verið skráð til náms við Háskóla Íslands á síðustu þremur árum, á undan sérstökum kjörfundi.

Embætti sem kosið er í á skrifstofu Stúdentaráðs, skv. lögum ráðsins:

  • Forseti Stúdentaráðs er kjörinn á kjörfundi.
  • Varaforseti Stúdentaráðs er kjörinn á kjörfundi.
  • Lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs er kjörinn á kjörfundi. Hann situr í stjórn Menntasjóðs námsmanna. Hann tekur þó ekki við af fyrri fullltrúa fyrr en samningaviðræðum um úthlutunarreglur næsta skólaárs er lokið. Skrifstofa Stúdentaráðs skipar varafulltrúa úr hópi starfsfólks í stjórn Menntasjóðsins.  
  • Hagsmunafulltrúi er kjörinn á kjörfundi.

Nefndir Stúdentaráðs, skv. lögum ráðsins:

  • Í fjármála- og atvinnulífsnefnd, jafnréttisnefnd, alþjóðanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, fjölskyldunefnd, félagslífs- og menningarnefnd og lagabreytinganefnd skulu kjörnir fjórir einstaklingar á kjörfundi. 
  • Stúdentaráð skipar tvo aðila í nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd SHÍ og eru þeir kjörnir á kjörfundi. Icelandic Startups skipar einn aðila og sjálf velur nefndin sér fjóra aðila. Auglýsa skal laus pláss meðal nemenda Háskólans að vori.

 

Á kjörfundi kjósa nýkjörnir fulltrúar Stúdentaráðs. Gefi fleiri kost á sér en kosið er ræður hlutfallskosning. Séu fleiri en einn í framboði í tiltekinni kosningu, hlýtur sá einstaklingur sem fær flest atkvæði embættið, svo sá sem þar eftir kemur og svo koll af kolli.

Tilnefningar í embætti skal skila til fundarstjóra sem er jafnframt forseti Stúdentaráðs, Isabel Alejandra Díaz, fyrir kjörfund á shi@hi.is eða á fundinum sjálfum.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans.

Deila

facebook icon
linkedin icon