5. febrúar, 2024

Hámu í Eirbergi verður haldið opinni út vorönn 2024

Aðdragandi málsins:

Fyrr í vetur varð ljóst að loka yrði sölustöðum Hámu í Eirbergi, Háskólabíói og Odda. Stúdentaráð sendi í kjölfarið erindi til Háskóla Íslands þar sem þessar breytingar voru harmaðar, í ljósi þess að við þær var útséð að ákveðinn hópur stúdenta myndi missa mikilvæga þjónustu í byggingum þar sem kennsla fer fram.

Í erindinu stendur einnig: FS er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun, sett á fót af stúdentum fyrir stúdenta og háskólasamfélagið allt. FS hefur það að markmiði að þjónusta stúdenta eins vel og unnt er, á eins lágu verði og mögulegt er. FS starfrækir m.a. 9 veitingasölustaði Hámu á víð og dreif í byggingum háskólans. Þar býðst nemendum og starfsfólki háskólans hollur matur á viðráðanlegu verði. Þar að auki fá stúdentar sérstakan afslátt af mat og kaffi í Hámu.

Hluti af sölustöðum Hámu hefur aldrei staðið undir rekstri, en þjónustu á fámennari stöðum hefur verið haldið uppi af öðrum einingum til þess að þjónusta sé stúdentum aðgengileg í sem flestum byggingum háskólans.

Í Covid faraldrinum ákvað FS að halda úti þjónustu fyrir stúdenta sem sóttu staðartíma á háskólasvæðinu þrátt fyrir taprekstur. Eftir Covid er ekki eins mikið af fólki í byggingunum háskólans og var fyrir faraldurinn. Þetta sést m.a. á sölutölum Hámu. Af tveimur slæmum kostum ákvað FS að loka þessum þremur stöðum, í stað þess að hækka vöruverð. 

Í erindinu hvatti SHÍ háksólann til að styrkja rekstur Hámu og taka þannig virkan þátt í myndun blómlegs háskólasvæðis.

Hámu í Eirbergi verður haldið opinni út vorönn 2024:

Nú hefur háskólinn orðið við beiðni Stúdentaráðs og veitt FS styrk fyrir mars, apríl og hálfan maí, svo hægt sé að halda rekstri Hámu í Eirbergi yfir þann tíma. Eirberg er staðsett lengst frá næstu þjónustu og því er afar ánægjulegt að háskólinn hafi séð sér fært að veita styrk til að halda þeiri Hámu opinni. Það er því greinilegt að hagsmunabarátta stúdenta ber árangur.

Deila

facebook icon
linkedin icon