20. janúar, 2023

Fréttir frá Stúdentaráðsfundi 19. janúar 2023

Stúdentaráð fundaði í gær í 7. skipti á þessu starfsári, en ráðið fundar mánaðarlega og eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Forseti Stúdentaráðs stýrir fundum ráðsins og byrjar hvern fund á að fara yfir tilkynningar og helstu mál á döfinni, en það er mikilvægur liður í að tryggja upplýsingaflæði frá skrifstofu Stúdentaráðs til stúdenta. 

Á fundinum kynnti Sigríður Olafsson, Alþjóðafulltrúi LÍS Student Refugees Iceland (SRI) sem hún stýrir ásamt Ernu Benediktsdóttur. Sigríður situr einnig í Stúdentaráði og sinnir því sjálfboðastörfum í þágu stúdenta á ýmsum vettvöngum. SRI er er verkefni sem snýr að því að aðstoða flóttafólk og hælisleitendur við að sækja um nám hérlendis. Hún fór yfir söguna að baki verkefninu, hvernig starfsemin fer fram og hvernig er hægt að taka þátt, en þau eru að leita að fleiri sjálfboðaliðum til þess að taka þátt. Það var fróðlegt að heyra nánar um þetta mikilvæga verkefni og hvetjum við öll sem hafa áhuga og tök á að að skrá sig sem sjálfboðaliða – sjá nánar hér. 

Fjórar tillögur voru lagðar fyrir ráðið og hlutu þær allar einróma samþykki. Var það tillaga um herferð Stúdentaráðs, tillaga um að Stúdentaráð beiti sér fyrir aukinni hinseginfræðslu á Heilbrigðisvísindasviði, tillaga um að Stúdentaráð leggi til breytingar á úthlutunarreglum Félagsstofnunar Stúdenta og tillaga um að Stúdentaráð skrifi undir opið bréf til Sundhallar Reykjavíkur og ÍTR þess efnis að einum inniklefa Sundhallarinnar verði breytt  í fjölskylduklefa. Þessar tillögur verða núna unnar áfram af réttindaskrifstofu Stúdentaráðs, sviðsráðum og fastanefndum SHÍ eftir því sem við á. 

Þá voru teknar fyrir lagabreytingar á lögum Stúdentaráðs, uppfærð lög Stúdentaráðs má finna hér. og framkvæmdastjóri stöðuna á fjárhagsáætlun Stúdentaráðs skv. verklagi. Andri Már Tómasson, stúdentaráðsliði, sagði síðan frá því hver árangurinn af tillögu hans frá nóvemberfundi Stúdentaráðs hefði verið, en hún sneri að því að Stúdentaráð beitti sér fyrir því að fleiri stúdentar myndu skrá persónufornöfn sín á Canvas. Herferðin skilaði góðum árangri en þó eru enn margir stúdentar sem eiga eftir að birta fornöfn sín og lagði Andri til áframhaldandi vinnu í þessum málum.

Að lokum kaus ráðið hver yrði tilnefning Stúdentaráðs í kjöri til Ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menninga, en auglýst var eftir umsóknum meðal allra stúdenta í HÍ. Fjórar umsóknir bárust og hlaut Isabel Alejandra Díaz, nemi í opinberri stjórnsýslu flest atkvæði. 

Stúdentaráð er stolt af því að tilnefna hana en Isabel hefur mikla reynslu af störfum í þágu ungs fólks, en hún starfaði sem forseti SHÍ frá 2020 – 2022 og sat samhliða því fyrir hönd stúdenta í háskólaráði. Í kynningarbréfi sínu kom Isabel inn á það hvernig reynsla hennar innan SHÍ og HÍ myndi reynast henni í hlutverki sem þessu:

,,Störf mín undanfarin misseri hafa kveikt áhuga minn á menntakerfinu sem slíku og starfsemi hins opinbera. Sérstaklega í ljósi uppstokkunar á mennta- og menningarmálum og stofnun nýs ráðuneytis háskóla sem samtvinnar einkum vísindi og nýsköpunarmál. Aðkoma að stefnumótunarferli HÍ26 á vettvangi háskólaráðs og rektorsskrifstofu jók einnig vitneskju mína í þessum efnum sem og samþættingu þeirra við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.”

,,Ég hef því öðlast viðamikla þekkingu á umsagnar- og greinarskrifum, tillögugerð og málefnastarfi ásamt því að þróa góða framkomu og samskiptalipurð við þar til bær stjórnvöld, ólíka hagaðila og í viðtölum við fjölmiðla. Ég hef mikla ástríðu fyrir þeim málaflokkum sem hér ræðir um en ég tel þá vera meginstólpa íslensks samfélags. Ljóst er að þessi staða ungmennafulltrúa geti verið liður í því að m.a. miðla starfsemi UNESCO til ungs fólks og vera rödd þess gagnvart stjórnvöldum þegar kemur að mennta, vísinda og menningarmálum.”

Isabel Alejandra Díaz

Kjörið sjálft fer svo fram á leiðtogaráðsfundi Landssamtaka ungmennafélaga (LUF) þann 24. janúar nk. þar sem kosið er á milli tilnefninga frá aðildarfélögum LUF og óskum við Isabel góðs gengis. 

Eins og sjá má er af nógu að taka á fundum Stúdentaráðs og eru fundir ráðsins hátt í þrír tímar og þökkum við Joe and the Juice kærlega fyrir að styrkja okkur um samlokur og safa til að tryggja orku fundargesta. Við vekjum athygli á því að þau hafa opnað á Birkimel (við Þjóðarbókhlöðuna og Sögu) og bjóða upp á 50% afslátt af djúsum, sjeikum og kaffi út janúar.

Deila

facebook icon
linkedin icon