14. júní, 2023

Ársskýrsla Stúdentaráðs 2022-2023

Hverju starfsári Stúdentaráðs lýkur með skýrslugerð þar sem tekin eru saman helstu störf, verkefni, sigrar og ósigrar. Ársskýrsla Stúdentaráðs 2022-2023 var kynnt af fráfarandi forseta SHÍ, Rebekku Karlsdóttur, á skiptafundi Stúdentaráðs þann 23. maí sl. og er hún nú aðgengileg hér.  Stúdentar og önnur áhugasöm eru hvött til að glugga í skýrsluna enda gefur hún góða innsýn í það fjölbreytta starf sem unnið er innan Stúdentaráðs. Hér má síðan finna ársskýrslur fyrri ára fyrir áhugsöm ásamt því að útprentuð eintök má finna á skrifstofu Stúdentaráðs.

Í ávarpi forseta leggur Rebekka áherslu á mikilvægi hagsmunabaráttu stúdenta nú þegar stór mál eru til endurskoðunar í ráðuneyti háskólamála:

 

Stór og viðamikil mál sem varða háskólanna eru nú til endurskoðunar í nýju ráðuneyti háskólamála og ljóst er að þær breytingar sem ráðist verður í munu hafa mikil áhrif til framtíðar. Við höfum komið afstöðu stúdenta fram á vandaðan og áberandi hátt sem hefur vakið athygli í fjölmiðlum og nú reynir á að fylgja því eftir. Hagsmunabarátta stúdenta er ekki bara barátta þeirra sem eru í námi núna heldur er það barátta fyrir betra og jafnara samfélagi. Jafnt aðgengi að námi skiptir grundvallarmáli fyrir jöfnuð í samfélaginu og er víða pottur brotinn í þeim efnum hér á landi. Núverandi stuðningskerfi námsmanna uppfyllir ekki hlutverk sitt sem félagslegur jöfnunarsjóður og stúdentar lenda á milli annarra velferðarkerfa. Stúdentar eiga að geta stundað nám án þess að þurfa að klóra sig í gegnum fjárhagsörðugleika og áhyggjur, en sú er ekki raunin í núverandi kerfi. Tryggja þarf að hér séu til staðar vel fjármagnaðir og aðgengilegir opinberir háskólar þar sem þeir fá rými til að sinna sínu grundvallar hlutverki, sem er fyrst og fremst að skila þekkingu út í samfélagið.

 

 

Deila

facebook icon
linkedin icon