13. mars, 2024

Almenn gjaldtaka á bílastæðum við HÍ hefst í haust

Á síðasta fundi háskólaráðs var tekin ákvörðun um að hefja gjaldtöku á bílastæðum við Háskóla Íslands 1. september 2024. Stúdentar og starfsfólk mun þá geta skráð sína bíla og til að fá undantekningu á gjaldskyldunni, greiði þau um 1.500 kr mánaðarlega. Stefna Stúdentaráðs í skipulags- og samgöngumálum er mjög skýr varðandi það að Háskóli Íslands verði, ásamt öðrum hagaðilum Vatnsmýrarsvæðisins, að stuðla að breyttum ferðavenjum og sporna gegn auknum umferðarþunga á svæðinu. Jafnframt felst krafa Stúdentaráðs í því að samhliða þeirri þróun verði stúdentum tryggt aðgengi að umhverfisvænum fararmátum með U-passa, samgöngukorti að evrópskri fyrirmynd. Í ljósi ákvörðunar háskólaráðs sem fer gegn þessum forsendum kusu fulltrúar stúdenta í Háskólaráði á móti tillögunni og lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar stúdenta vilja ítreka erindi sitt sem sent var með tölvupósti á meðlimi háskólaráðs í morgun 7. mars 2024. Telja fulltrúar stúdenta að samgöngu- og bílastæðamál sé mikið hagsmunamál stúdenta og stórt vandamál sem háskólinn þarf að takast á við.

Í erindisbréfinu er meðal annars bent á vandamálið sem skólinn stendur frammi fyrir, þ.e.a.s. of mikið af bílum, of mikil umferð, of mikil neikvæð umhverfisáhrif og of mikill kostnaður við rekstur á bílastæðum. Tillagan sem framkvæmda- og tæknisvið leggur fram á fundi háskólaráðs í dag teljum við ekki leysa neitt af framangreindum vandamálum. 

Í ljósi þess að málið er veigamikið og kemur til með að hafa áhrif á öll þau sem sækja menntun, vinnu eða aðra þjónustu við Háskóla Íslands þykir stúdentum sérstaklega mikilvægt að vel sé unnið að verkefninu, með hagsmuni allra stúdenta í huga. Á undanförnum misserum hefur mætingu á háskólasvæðinu dvínað, óljóst er af hverju það stafar en víst er að ekki hlýst sama upplifun af því að stunda nám með lítilli mætingu eða algjörri fjarveru. Félagstengsl eru mikilvægur þáttur af háskólamenntun þó erfitt sé að mæla vægi þess, það væri því slæmt ef ákvarðanir háskólaráðs er varða bílastæðamál hefðu í för með sér frekari fækkun á háskólasvæðinu.

Fulltrúar stúdenta kjósa gegn þeirri tillögu sem er hér lögð til. Fram að þessu hefur það verið skilningur stúdenta að ekki verði hafin gjaldskylda án þess að stúdentum bjóðist mótvægisaðgerðir. Fulltrúum stúdenta þætti samræmast stefnu skólans betur að verja þeim fjármunum í að niðurgreiða vistvæna samgöngumáta, enda kosta umhverfismál pening.” 

Mikilvægt er að almenningssamgöngur og vistvænir samgöngukostir séu efldir þannig að stúdentar og starfsfólk Háskóla Íslands geti ferðast með umhverfisvænum hætti. Það verður að vera raunhæfur valkostur fyrir stúdenta sem búsettir eru víða á höfuðborgarsvæðinu og nærliggjandi sveitarfélögum að komast á milli staða á skilvirkan máta, hratt og örugglega án óþarfa kostnaðar fyrir fólk og umhverfið. Þá er ítrekuð afstaða Stúdentaráðs um að þjónusta næturstrætó sé sérstaklega mikilvæg ungu fólki á grundvelli umhverfis-, öryggis-, menningar- og jafnréttissjónarmiða.

Stúdentaráð vísar einnig í ítarlegra erindi frá fulltrúum stúdenta í háskólaráði til fulltrúa í háskólaráði vegna tillögu að fyrirkomulagi reksturs bílastæða HÍ, sem tekið verður til umræðu á fundi ráðsins 7. mars.

Deila

facebook icon
linkedin icon