14. desember, 2022

Yfirlýsing Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna undirfjármögnunar Háskóla Íslands og umræðna um hækkun skrásetningargjalda

Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af fjármögnun Háskóla Íslands í ljósi umræðna um fjárlög á þingi og gagnrýnir harðlega beiðni háskólayfirvalda um hækkun skrásetningargjaldsins.

Rektor Háskóla Ísland, hefur farið þess á leit við ráðherra ásamt rektorum hinna opinberu háskólanna að heimildin um hámarksupphæð skrásetningargjaldsins í lögum verði hækkuð upp í 95.000kr. Það gerði hann áður en málið var tekið upp í háskólaráði og má sjá afstöðu fulltrúa stúdenta í háskólaráði til þessara vinnubragða og gagnvart umræðum um hækkun í fundargerð háskólaráðs hér.

Úr bókun fulltrúa stúdenta: ,,Við hljótum öll að vera sammála um það að Háskóli Íslands er vanfjármagnaður en það er sorgleg staða að óskað sé eftir því að stúdentar beri uppi rekstur opinberrar háskólamenntunar með þessum hætti.”
Stúdentaráð leggst alfarið gegn öllum áformum um hækkun gjaldsins. Ráðast þurfi tafarlaust á rót vandans, sem er fjármögnun opinberrar háskólamenntunar hér á landi, eða réttara sagt skortur á henni. Stúdentaráð krefst þess að stjórnvöld sinni lögbundnum skyldum sínum um fjármögnun opinberrar háskólamenntunar í stað þess að velta byrðinni yfir á stúdenta.
Úr yfirlýsingunni: ,,Það er ekki tilviljun að háskólayfirvöld óski eftir hækkun á skrásetningargjaldinu í kjölfar 2. umræðu fjárlaga og þeim niðurskurði til Háskóla Íslands sem þar er boðaður. Byrðinni af fjármögnun opinberrar háskólamenntunar er velt beint yfir á stúdenta vegna þess að stjórnvöld sinna ekki lögbundinni skyldu sinni til þess að halda uppi grunnstarfsemi háskólanna með nægilegri fjárveitingu á fjárlögum. Beiðni um hækkun gjaldsins nú er ekkert annað en örvæntingarfull tilraun háskólayfirvalda til þess að plástra blæðandi sár, enda yrði hækkun gjaldsins aðeins dropi í hafið fyrir háskólann miðað við það fjármagn sem upp á vantar, en myndi aftur á móti hafa mikil áhrif á stúdenta.”
Yfirlýsinguna í heild sinni má finna í heild sinni hér: https://bit.ly/3HAm0xJ

Deila

facebook icon
linkedin icon