1. april, 2022

Úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna skólaárið 2022-2023

Úthlutunarreglur hjá Menntasjóði námsmanna fyrir skólaárið 2022-2023 hafa verið samþykktar af háskóla- vísinda- og nýsköpunarráðherra. Í úthlutunarreglunum fyrir næsta skólaár hækkar grunnframfærsla framfærsluána um 18%. Hækkun á grunnframfærslunni er alltaf fagnaðarefni en Stúdentaráð undirstrikar þó mikilvægi þess að hún sé endurskoðuð árlega og að nánari fyrirmæli fylgi lögum um tilhögun framfærslulána þannig að grunurinn sé endurskoðaður milli ára. Í núgildandi lögum er ekki gerð skýr krafa til stjórnar Menntasjóðsins um endurskoðun með reglubundnum hætti og því ekkert tilkall til stjórnar um að bregðast við þegar þörf krefur. Stúdentaráð bindir vonir um að tekið verði tillit til þess við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

Frítekjumarkið hækkar einnig og verður 1.483.000 KR. fyrir skólaárið 2022-2023. Hækkunin er miðuð við breytingu á neysluvísitölu milli ára og gera það 73.000 KR. hækkun. Stúdentaráð fagnar því að enn sé heimilt að fimmfalda frítekjumark stúdents sem ekki hefur verið á námslánum hjá sjóðnum sl. 6 mánuði. Er þetta mikilvægur liður í að tryggja að stúdent geti hafið lántöku án þess að verða strax fyrir skerðingu vegna frítekjumarksins. Stúdentaráð ítrekar samt sem áður afstöðu sína um að öllum lántökum eigi að gefast kostur á að sækja um fimmföldun á frítekjumarkinu. Styrkur og lán vegna barna verður einnig hækkað og er fjárhæð styrks fyrir hvert barn á framfæri námsmanns sem lýkur lágmarks námsárangri 182.250 KR. á hverri önn.

Frestur til að sækja um námslán á haustönn hefur verið breytt og verður nú 15. október, 2022. Stúdentaráð þykir einnig við hæfi að umsóknarfrestinum á vorönn verði breytt í samræmi við breytinguna á haustönn, enda liggur fyrir að 15. janúar sé íþyngjandi frestur fyrir marga tilvonandi lántaka. Hafa verður í huga að aðstæður stúdenta geta breyst verulega á miðju misseri og því telur ráðið að umsóknarfrestirnir séu enn þá of snemma á misserunum.

Deila

facebook icon
linkedin icon