23. febrúar, 2025
Vegna kosninga til Stúdentaráðs 2025
Kæru stúdentar,
Kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands verða haldnar miðvikudaginn 2. apríl og fimmtudaginn 3. apríl n.k. Kosningarnar eru rafrænar og fara fram í gegnum innri vef Háskólans, Ugluna (www.ugla.hi.is). Í kosningum munu stúdentar hvers fræðasviðs kjósa sér fulltrúa í Stúdentaráð til eins árs.
Kjörstjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) lýsir hér með eftir framboðum til Stúdentaráðs árið 2025.
Skilafrestur framboða:
Skilafrestur framboða er til kl. 18:00, 23. mars 2025. Vinsamlegast hafið samband við kjor@hi.is hafið þið hug á framboði til að fá afhenda undirskriftalista og eyðublað vegna framboða. Framboð til Stúdentaráðs skulu uppfylla ákvæði VIII. kafla samþykkta SHÍ um kosningar.
Hver frambjóðandi skal safna tíu undirskriftum. Bjóði sömu samtök fram framboðslista á öllum sviðum þurfa stuðningsmenn listans þó aldrei að vera fleiri en 100 í heildina. Samhliða þessu skulu framboð tilnefna umboðsmann þess gagnvart kjörstjórn, sem sér um samskipti við hana.
Kjörstjórn mun taka á móti framboðum rafrænt í gegnum netfangið kjor@hi.is til kl. 18:00 23. mars og verður ekki tekið við framboðum eftir þann tíma. Komi upp vandkvæði skal hafa samband við kjörstjórn í gegnum sama netfang.
Kjörskrá:
Kjörskrá mun liggja fyrir þann 8. mars og skulu kærur vegna kjörskrár hafa borist kjörstjórn eigi síðar en kl. 12:00 þann 15. mars. Á kjörskrá eru þeir stúdentar sem skráðir eru í nám við Háskóla Íslands skólaárið 2024-2025. Gesta- og skiptinemar, sem og nemar sem skráðir eru á námsleiðir með stökum námskeiðum, líkt og í Símennt, hafa ekki atkvæðisrétt.
Framboð til Stúdentaráðs munu fá afhenda skrá yfir stúdenta, í þeim tilgangi að hafa samband við stúdenta vegna kosninganna. Kjörskrá verður keyrð saman við bannskrá Þjóðskrár og símanúmer þeirra sem eru þar skráð verða tekin út af skránni sem afhent verður framboðunum. Jafnframt verður gætt að skilyrðum 94. gr. fjarskiptalaga nr. 70/2022. Þá er öllum sem eru á skránni veittur réttur til að andmæla notkun á sínum persónuupplýsingum í þessum tilgangi.
Ef stúdent vill ekki að hringt sé í sig í aðdraganda kosninga getur viðkomandi fyllt út eyðublað hér. Hægt er að koma á framfæri andmælum til klukkan 23:59 þann 7. mars. Tekið verður tillit til andmæla sem þá hafa borist.
Framboðum er óheimilt að hringja í einstaklinga sem svara ekki símhringingum oftar en þrisvar sinnum. Eins mega framboðin hvorki senda SMS-skilaboð né hafa samband við einstakling sem er ekki „vinur“ viðkomandi á samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að kynna framboð.
Ef ykkur þykir áreitið af hringingum orðið of mikið er ætíð hægt að hafa samband við Stúdentaráð (shi@hi.is) eða kjörstjórn (kjor@hi.is). Ef þið fáið símtal frá framboðum sem þið teljið vera ólögmætt eða viljið ekki frekari símtöl er jafnframt hægt að senda tilkynningu á fyrrnefnd pósthólf og framboðum verður gert viðvart.
Frekari spurningum má beina á netfangið kjor@hi.is.
Kjörstjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands árið 2025 skipa Albert Guðmundsson (oddviti), Janus Arn Guðmundsson, Benedikt Traustason og Alexandra Ýr van Erven.
F.h. Kjörstjórnar SHÍ,
Albert Guðmundsson