1. febrúar, 2023

Tilnefningar Stúdentaráðs kjörnar ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

Rebekka Karlsdóttir, forseti SHÍ, er nýr ungmennafulltrúi á sviði sjálfbærrar þróunar

Á 3. leiðtogaráðsfundi LUF í nóvember hlaut Rebekka Karlsdóttir, forseti SHÍ, kjör sem ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar.

Rebekka er með BA-gráðu í lögfræði en hefur einnig stundað nám í líffræði. Þá hefur hún m.a. einnig starfað sem landvörður og laganemi meðfram námi ásamt því að sinna stjórnarstörfum hjá Ungum umhverfissinnum og Náttúruverndarsamtökum Austurlands. Hún hefur því mikla reynslu af hagsmunabaráttu ungs fólks og sjálfboðaliðastörfum.

Í framboðsræðu sinni talaði Rebekka um hversu mikilvægt er að rödd ungs fólks fái að heyrast sem víðast. Hún ætlar að leita leiða til að virkja fleiri með sér og heyra hvað ungmennum á Íslandi finnst eiga að leggja áherslu á í málaflokknum. Rebekka mun einnig beita sér fyrir því að fulltrúum ungmenna verði fjölgað í stöðum sem þessum til framtíðar þannig að rödd þeirra hljómi enn hærra.

Rebekka kemur til með að taka þátt í störfum ráðherrafundar Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF 2023), sem fram fer í New York 10. – 19. júlí, í umboði ungs fólks á Íslandi. Þá skipar hún einnig sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. 

Isabel Alejandra Díaz er nýr ungmennafulltrúi á sviði mennta, vísinda og menningar

Isabel Alejandra Díaz, tilnefning SHÍ, var á dögunum kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar. Leiðtogaráð Landssambands ungmennafélaga, LUF, kaus Isabel á 4. fundi ráðsins en þetta er í fyrsta skipti sem lýðræðislega er kjörið í stöðuna.

Isabel stundar meistaranám í opinberri stjórnsýslu ásamt því að vera með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur mikla reynslu og ástríðu fyrir málefnum ungs fólks, hagsmunastarfi og málefnavinnu. Hún gegndi embætti forseta Stúdentaráðs 2020-2022 og sat þá einnig í háskólaráði.

Hún hefur unnið að menningarmálum sem verkefnastjóri Tungumálatöfra, námskeiðs fyrir börn með ólíkan menningarbakgrunn til að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi í gegnum listkennslu. Isabel hefur einnig setið í ýmsum hópum á sviði mennta, menningar- og félagsmála t.a.m. samhæfingarhópi stjórnvalda um atvinnu- og menntaúrræði og samráðsvettvangi um jafnrétti kynjanna á vegum Jafnréttisráðs.

Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mennta, vísinda og menningar skipar sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ og starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Þá sitja ungmennafulltrúar einnig í alþjóðaráði LUF sem er samráðsvettvangur aðildarfélaga er varðar alþjóðlegt starf.   

Isabel kemur til með að sækja aðalráðstefnu UNESCO, sitja í Íslensku UNESCO nefndinni auk þess að sækja norræna samráðsfundi og sækja ungmennaþing UNESCO, í umboði ungs fólks á Íslandi. 

Stúdentaráð óskar Isabel og Rebekku til hamingju með kjörið og hlökkum við mikið til að fylgjast með þeim í þessum störfum!

Deila

facebook icon
linkedin icon