18. október, 2021

Tilkynning frá Stúdentaráði vegna námsframboðs við Háskóla Íslands

Réttindaskrifstofa Stúdentaráðs er meðvituð um umræðuna sem hefur átt sér stað undanfarna daga í tengslum við fjarnám við Háskóla Íslands. Stúdentaráð hefur beitt sér fyrir aukinni rafrænni kennslu annars vegar og auknu fjarnámi hins vegar með ýmsum hætti og mun halda því staðfast áfram.

Varðandi rafræna kennslu hefur það verið skýrt ákall ráðsins að kennsluhættir skuli þróast í takt við samtímann, með aukinni tæknivæðingu og fjölbreyttari kennsluaðferðum. Framfarir hafa orðið með tilkomu rafræns prófakerfis sem og nýs námsumsjónarkerfis. Því til viðbótar eru til staðar aðrar rafrænar lausnir sem eiga að stuðla að kennslufræðilegri þróun og er mikilvægt að halda áfram að byggja á. Eftir þær áskoranir sem við höfum gengið í gegnum undanfarið eitt og hálft ár eiga rafrænir kennsluhættir ekki að vera okkur fjarstæðukenndir lengur. Mikilvægt er að háskólinn geti áfram brugðist við ófyrirséðum aðstæðum stúdenta og tileinki sér þar með sveigjanleika í kennsluháttum, t.d. með upptökum og streymi kennslustunda. Ákall stúdenta um tæknivæddari kennsluhætti snýst um að tryggja skuli aðgengi að námi og stuðla að því að jafnræðis sé gætt meðal stúdenta. 

Hvað varðar framboð fjarnáms er það ljóst að Háskóli Íslands verður að gera betur ef duga skal til að koma til móts við breiðari hóp stúdenta. Fjarnámsáætlun Háskóla Íslands fer í innleiðingu á næstunni og fyrir það fær Stúdentaráð áætlunina á sitt borð til yfirferðar, og jafnframt verður hún kynnt fyrir stúdentum og starfsfólki. Í dag eru vissar námsleiðir í boði í fjarnámi og hefur Menntavísindasvið staðið fremst meðal jafningja hvað það varðar. Mikilvægt er að horfa til þeirrar reynslu og starfs sem þegar á sér stað innan háskólans og nýta það á fleiri fræðasviðum þannig að hægt verði að auka framboð á fjarnámi.

Jafnt aðgengi að námi er stúdentum hugleikið og er eitt mikilvægasta hagsmunamál þeirra. Réttindaskrifstofa Stúdentaráðs mun halda áfram að beita þrýstingi á að það sé haft að leiðarljósi í starfsemi skólans með öllum ráðum tiltækum. Það sem er mikilvægast öllu er að gæði náms og kennslu séu tryggð því Háskóli Íslands á að bjóða upp á gott og samkeppnishæft nám.

Deila

facebook icon
linkedin icon