18. desember, 2020

Stúdentaráð skorar á stjórnvöld að fullfjármagna niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu

Samfélagsástandið hefur legið þungt á stúdentum og skiljanlega erfitt fyrir marga að stunda nám áhyggjulaus. Námserfiðleikar kunna að aukast og geðheilsa stúdenta tekið skell. Niðurstöður könnunar Stúdentaráðs frá 9. – 16. október voru til marks um að 67% stúdenta líði ekki vel í aðstæðum sökum faraldursins og 72% þeirra voru að upplifa mikið álag sem þau töldu að hefði áhrif á námsframvindu. Niðurstöður fyrstu könnunar ráðsins frá 22. mars sýndu að 54% íslenskra nema töldu sig upplifa mikla streitu og sömuleiðis 42% alþjóðlegra nema, og sögðu 53.1% að það kæmi til með að hafa áhrif á námsframvindu. 

Það er því greinilegt að ástandið hefur verið slæmt, viðvarandi og farið jafnvel versnandi. Frá því í september hafa biðlistar eftir sálfræðiþjónustu við Háskóla Íslands verið að lengjast töluvert samanborið við önnur ár. Eftirspurnin hefur verið gríðarleg allt haustmisserið og umfram getu til að koma til móts við hana. Vegna þessa er ekki hægt að taka við fleiri beiðnum í einstaklingsviðtöl hjá sálfræðingum skólans, sem eru þrír talsins. 

Stúdentum við Háskólann hefur fjölgað um rúmlega 2.000 á þessu misseri og stunda nú rúmlega 15.000 nemendur nám, sem er metfjöldi. Þeim fer ört fjölgandi en Háskólanum hefur borist um tvöfalt fleiri umsóknir í framhaldsnám á næsta vormisseri. Það verður að vera hægt að þjónusta þennan mikla fjölda og er aðkoma stjórnvalda þar lykilatriði, með trygga fjármögnun sem er til þess fallin að styrkja þjónustu Háskólans til frambúðar.

Stúdentaráð hefur talað fyrir bættri geðheilbrigðisþjónustu við stjórnvöld í gegnum faraldurinn og brýnt fyrir þeim mikilvægi þess að huga að velferð stúdenta. Í farteskinu hefur ráðið haft fimm kannanir sem varpa ljósi á stöðu stúdenta og styrkja málflutning þess. Það eru því mikil vonbrigði að enn séu stúdentar undanskildir og að það sé útlit fyrir að það verði ekki heldur lögð áhersla á að veita stúdentum, og landsmönnum öllum, viðunandi og mikilvæga geðheilbrigðisþjónustu sem hefur ef til vill aldrei verið jafn nauðsynleg og einmitt núna. Það er með öllu óboðlegt og skorar Stúdentaráð hér með á stjórnvöld að efna gefin loforð. 

Skrifum undir!

 

Deila

facebook icon
linkedin icon