21. nóvember, 2023
Stúdentar fordæma stríðsreksturs ísraelskra stjórnvalda í Palestínu
Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS), sem SHÍ er aðili að, gáfu frá sér yfirlýsingu í dag vegna stíðsreksturs ísraelskra stjórnvalda í Palestínu.
Í yfirlýsingunni, sem einnig má finna hér, segir:
Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) fordæma framgöngu og stríðsglæpi ísraelskra stjórnvalda í Palestínu og lýsa yfir fullum stuðningi við palestínsku þjóðina og baráttu hennar fyrir tilverurétti sínum sem frjáls þjóð. Tryggja verður tafarlausa mannúðaraðstoð og virðingu fyrir grundvallarmannréttindum.
Stúdentar eru þátttakendur í íslensku háskólasamfélagi og ber því skylda að bregðast við ákalli Birzeit háskóla: Fræðasamfélaginu ber að uppfylla akademískar skyldur sínar, byggja á staðreyndum, halda fjarlægð frá ríkisstyrktum áróðri og gera þá sem standa fyrir þjóðarmorði, sem og þá sem það styðja, ábyrga fyrir gjörðum sínum.
Háskólamenntun er mikilvægur vegvísir að opnara og réttlátara samfélagi. Stúdentar hvetja því háskólastofnanir landsins sem og fræðasamfélagið í heild sinni til að halda staðreyndum á lofti, viðurkenna sögulegar rætur árásanna og varpa ljósi á valdaójafnvægi þjóðanna. Þekkingu og orðræðu fylgir vald en líkt og kemur fram í yfirlýsingu frá starfsfólki Háskóla Íslands hefur vestrænt alþjóðasamfélag haldið uppi ríkjandi orðræðu sem afmennskuvæðir palestínsku þjóðina og skapar réttlætingu fyrir ítrekuðum fjöldamorðum á saklausum borgurum.
LÍS krefjast þess að íslensk stjórnvöld fylgi eftir ályktun Alþingis um tafarlaust vopnahlé með afdráttarlausum hætti á alþjóðavettvangi og beiti sér fyrir vopnahléi strax. Þjóðarmorð, stríðsglæpir og ólögleg yfirtaka landsvæða hafa átt sér stað í óforskammanlega langan tíma. Tími skýrrar afstöðu og athafna er löngu runninn upp.
LÍS krefjast þess sömuleiðis að Evrópusamtök stúdenta (ESU) fordæmi árásir ísraelskra stjórnvalda sem og Hamas samtakanna og dragi til baka birta yfirlýsingu sem byggir á hlutdrægni orðræðu í þágu Ísrael og víkur sér undan því að gera ísraelsk stjórnvöld ábyrg fyrir gjörðum sínum.
Íslenskir stúdentar standa með Palestínu í baráttunni fyrir friði og réttlæti.