23. janúar, 2023

Stefna Stúdentaráðs vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur birt stefnu sína vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna og tekur um leið undir kröfur Landssamtaka íslenskra stúdenta er snúa að málaflokknum. Samkvæmt bráðabirgðarákvæði í lögunum skulu niðurstöður endurskoðunarinnar kynntar á haustþingi 2023 og leggur Stúdentaráð áherslu á að við endurskoðunina verði kerfið í heild sinni tekið til ítarlegrar skoðunar, í ljósi þess að stúdentar búa enn, í grundvallaratriðum, við ófullnægjandi stuðningskerfi.

Helstu áhersluatriði stefnu Stúdentráðs snúa að jöfnu aðgengi að námi og hlutverki sjóðsins sem félagslegur jöfnunarsjóður. Má þar til dæmis nefna kröfur um að lögfest sé að upphæðir lána séu endurskoðaðar á milli ára, ríkisstyrkir séu auknir og úthlutun þeirra sé þannig háttað að fleiri lántakar eigi kost á að hljóta slíka styrki. Þá krefst Stúdentaráð þess að fyrirkomulag vaxta sé endurskoðað og að undanþágur taki mið af raunverulegum aðstæðum stúdenta.

Stúdentaráð væntir þess að tekið verði tillit til þessara krafa við endurskoðun laganna, enda endurspegla þær sjónarmið stærsta hagsmunaaðila námslánakerfsins, stúdenta. Kröfurnar eru auk þess í samræmi við þau markmið sem stjórnvöld hafa sett sér og koma fram í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 60/2020 sem og lögbundið hlutverk sjóðsins sem félagslegur jöfnunarsjóður og markmið laganna um að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti.

Stefnuna má finna í heild sinni hér: Stefna Stúdentaráðs í tengslum við endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020, og í pdf formi með heimildum hér.

 

Deila

facebook icon
linkedin icon