9. mars, 2023

Reglur um samskipti við kjósendur og önnur framboð

Stúdentaráð hefur samþykkt reglur sem munu gilda um samskipti við kjósendur og önnur framboð í komandi kosningum til Stúdentaráðs.

  1. Virtur verði í einu og öllu réttur kjósanda til leynilegra kosninga. Ekki skal undir neinum kringumstæðum krefja kjósanda um sönnun á kosningu eða að kjörseðill sé sýndur.
  2. Óheimilt er að halda viðburði á meðan kjörfundi stendur ef hætt er á að að réttur kjósenda til leynilegrar kosningar verði ekki virtur.
  3. Framboðum er óheimilt að leiðbeina kjósendum skipulega um að raða atkvæðum sínum til þess að skekkja úrslit kosninga og koma fleiri fulltrúum í Stúdentaráð en eðlilegt væri miðað við fjölda atkvæða til listans, sbr. 33. gr. laga Stúdentaráðs um framkvæmd kosninga.
  4. Heimilt er að dreifa kosningaefni innan veggja háskólans. Fylgja skal reglum háskólans við slíka dreifingu, m.a. með því að notast við þar til gerðar töflur og skilgreind svæði fyrir plaköt.
  5. Skipulögð dreifing kosningaefnis í byggingum háskólans á kjördögum er óheimil.
  6. Hvers kyns skemmdarverk á kosningaefni annarra framboða er óheimil.
  7. Dreifing á hvers kyns óhróðri eða meiðandi athugasemdum er óheimil.

Minniháttar brot eru þau brot sem ganga í berhögg við markmið um hátterni framboða án þess að teljast meiðandi og/eða af yfirlögðu ráði.

Meiriháttar brot fela í sér dreifingu á hvers kyns óhróðri, meiðandi athugasemdum eða einbeittan brotavilja gagnvart lögum SHÍ og/eða drengskaparheitum. Ef meiriháttar brot eiga sér stað mun kjörstjórn veita skriflega áminningu og birta hana á Facebook og/eða Twitter.

Unnið verður að því að leysa minniháttar brot án áminninga í lengstu lög. Ef minniháttar brot eiga sér ítrekað stað eftir tiltal mun kjörstjórn veita skriflega áminningu og birta hana á Facebook og/eða Twitter.

Listi yfir brot er ekki tæmandi. Kjörstjórn áskilur sér rétt til að bregðast við með þeim hætti sem hún telur viðeigandi ef ófyrirséð brot á almennri háttsemi eiga sér stað.

Samþykkt af Stúdentaráði 6. mars 2023.

Deila

facebook icon
linkedin icon