30. april, 2025
Ný forysta Stúdentaráðs kjörin
Í gær, 29. apríl, var haldinn kjörfundur Stúdentaráðs Háskóla Íslands þar sem skrifstofa næsta starfsárs var kosin. Nýtt ráð mun formlega taka við á skiptafundi undir lok maí.
Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, bætti við meirihluta sinn í Stúdentaráðskosningunum sem fóru fram hinn 2. og 3. apríl sl. Á kjörfundinum í kvöld hlaut Arent Orri J. Claessen því endurkjör sem forseti Stúdentaráðs, en í tilkynningu frá Stúdentaráði er það sagt sjaldgæft að forseti hljóti endurkjör.
Arent stundar nú meistaranám í lögfræði, en hann var formaður Vöku áður en hann tók við embætti forseta Stúdentaráðs.
Á fundinum hlaut einnig kjör Sylvía Martinsdóttir sem varaforseti ráðsins, en Sylvía nemur meistaranám í fjármálum. Viktor Pétur Finnsson hlaut þá kjör sem lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs, en Viktor stundar nám við viðskiptafræðideild.
Þá hlaut Valgerður Laufey Guðmundsdóttir endurkjör sem hagsmunafulltrúi SHÍ, en hún nemur einnig meistaranám í lögfræði.
„Ég er stoltur af starfinu okkar síðasta ár og þakklátur fyrir það traust sem okkur hefur verið sýnt af nýju Stúdentaráði og hlakka til að vinna með nýrri skrifstofu. Mig langar að þakka fráfarandi Stúdentaráði og skrifstofu fyrir sín störf og heiti því að við munum áfram vinna að bættum kjörum stúdenta,“ segir Arent Orri, forseti Stúdentaráðs