10. júní, 2022

Háskólaráð samþykkir tillögu að nýrri útfærslu tímabils sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði

Á fundi Háskólaráðs 2. júní sl. var tillaga að nýrri útfærslu tímabils sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði samþykkt! Tillagan byggir á erindi Stúdentaráðs og fulltrúa stúdenta í háskólaráði frá fundi háskólaráðs þann 4. nóvember 2021. Hún var unnin og samþykkt af stjórn Félagsvísindasviðs í samráði við kennslusvið, þar sem Rebekka Karlsdóttir, fulltrúi stúdenta í stjórn vann ötullega að málinu. Í tillögunni felst að sjúkra- og endurtökupróf á Félagsvísindasviði vegna haustmisseris fari fram í desember og janúar, en ekki í júní eins og nú.

Miðað er við að breytingarnar taki gildi háskólaárið 2023-2024 og bindur Stúdentaráð miklar vonir við áframhaldandi gott samráð við stjórnsýslu háskólans. Á fundinum 2. júní lögðu fulltrúar stúdenta í háskólaráði, Isabel Alejandra Díaz og Jessý Rún Jónsdóttir fram svohljóðandi bókun:

“Fulltrúar stúdenta í háskólaráði telja endurskoðun á fyrirkomulagi sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði löngu tímabæra og fagna nýrri tillögu að útfærslu sem fram er komin, í kjölfar erindis Stúdentaráðs á fundi háskólaráðs þann 4. nóvember 2021. Á sama tíma og þakkir eru færðar fyrir vinnuna sem ráðist var í vilja fulltrúar stúdenta undirstrika að það verði að tryggja að ný útfærsla nái fram að ganga fyrir háskólaárið 2023-2024, líkt og sammælst hefur verið um.

Ný útfærsla er ásættanleg lausn fyrir hlutaðeigandi og ljóst er að eðlilegt næsta skref sé að huga að heildarsamræmingu á kennslualmanaki þvert á svið. Fulltrúar stúdenta vilja þó taka fram að sú vinna, sem öll eru í grunninn sammála um, megi ekki hægja á eða hindra að nýtt fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa sé hrint í framkvæmd á Félagsvísindasviði. Fulltrúar stúdenta í háskólaráði sem og Stúdentaráð binda miklar vonir við að samráðið í framhaldinu verði lausnamiðað og farsælt í þágu stúdenta, en ljóst er að miklir hagsmunir eru undir fyrir þau. Við fögnum þessum fyrirhuguðu breytingum á sama tíma og við leggjum þunga á að útfærslan raungerist líkt og áform eru á um.”

Fundargerðina í heild sinni má finna hér.

Þetta er mikið fagnaðarefni enda hefur það verið baráttumál stúdenta um árabil að fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði yrði endurskoðað og breytt. Stúdentaráð og fulltrúar stúdenta í háskólaráði hlakka til að fylgja málinu eftir.

 

 

 

Deila

facebook icon
linkedin icon