Sjóðir og styrkir námsmanna

Hér er listi yfir þá styrki sem námsmenn geta sótt um, hafi þú fyrirspurn um styrki eða veist af styrkjum sem þú telur að ætti að birast hér vinsamlegast sendu okkur póst á shi@hi.is. Athugið að Hrafnkelssjóður er ekki lengur starfandi.

Stúdentasjóður

Stúdentasjóður veitir styrki til stúdenta og nemendafélaga innan Háskóla Íslands. Stúdentasjóður styður við:

  1. Menningar og félagslíf stúdenta,
  2. Alþjóðasamstarf stúdenta við erlenda aðila,
  3. Stúdenta sem fara í greiningu vegna sértækra námsöðruleika, athyglisbrests eða ofvirkni (ADD/ADHD).
  4. Erlenda stúdenta utan EES svæðisins sem glíma við fjárhagslega erfiðleika hérlendis.

Forseti sjóðstjórnar er Dagný Þóra Óskarsdóttir og netfang sjóðsins er studentasjodur@hi.is. Önnur sem sitja í stjórn sjóðsins eru: Arna Dís Heiðarsdóttir, Árni Þór Sörenssen, Viktor Pétur Finnsson, Roman Chudov, Armando Garcia Teixeira og Draumey Ósk Ómarsdóttir.

Úthlutað er úr sjóðnum fjórum sinnum á ári og fer fyrsta úthlutun yfirleitt fram í október ár hvert. Stúdentaráð sendir öllum stúdentum tölvupóst þegar opnað hefur verið fyrir umsóknir.

Öll viðurkennd félög stúdenta við HÍ geta sótt fasta styrki úr sjóðnum við upphaf hvers skólaárs. Jafnframt eiga deildarfélög með fleiri en 15 félaga rétt á höfðatölustyrk sem reiknast eftir fjölda nemenda í viðkomandi fagi. Hver úthlutun er auglýst með góðum fyrirvara af Stúdentaráði á póstlista nemenda við HÍ. Í stjórn sjóðsins situr einn fulltrúi af hverju fræðasviði og ásamt tveimur fulltrúum Stúdentaráðs.

Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands

Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands styrkir afburðanemendur til náms við skólann ár hvert. Styrkir eru veittir til framhaldsskólanema sem ná afburðaárangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands. Við úthlutun er einnig leitast við að styrkja nemendur sem sýnt  hafa sérstakar framfarir í námi sínu eða náð góðum námsárangri þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

  • Frekari upplýsingar um styrkinn veitir Kolbrún Einarsdóttir; kei@hi.is
Nýsköpunarsjóður námsmanna

Sjóðurinn er fjármagnaður með framlögum frá ríki (mennta- og menningarmálaráðuneyti) 55 m.kr. og Reykjavíkurborg 30 m.kr. en í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 hefur verið veitt 400 m.kr. aukalega í sjóðinn. Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. Frá stofnun 1992 hefur sjóðurinn unnið sér nafn og gott orð fyrir vinnu mörg hundruð námsmanna og verkefna sem þeir hafa leyst af hendi fyrir tilstyrk sjóðsins.

Erasmus+

​Erasmus+ styrkir fyrir nemendur Erasmus+ veitir nemendum evrópskra háskóla einstakt tækifæri til að öðlast alþjóðlega reynslu í námi sínu og skapa sér sérstöðu á vinnumarkaði. Að auki stuðlar hin nýja áætlun að jöfnum tækifærum til náms erlendis með sérstökum viðbótarstyrkjum til að mæta nemendum með sérþarfir.

Um er að ræða tvenns konar styrki sem nemendur geta sótt um:

  • Í Erasmus+ skiptinámi við einhvern af samstarfsskólum HÍ eru tekin námskeið sem síðan eru metin til eininga við heimkomu. Nemendur sem sækja um Erasmus+ styrk til skiptináms fá dvalarstyrk 660-770€ á mánuði og ferðastyrk 275-820€ (eftir fjarlægð frá áfangastað). Athugið að þessar upphæðir gilda fyrir þær umsóknir sem berast vegna frests 1. febrúar 2019.
  • Í Erasmus+ starfsþjálfun er unnið að ákveðnu verkefni við fyrirtæki eða hjá stofnun við eitthvað sem tengist námi viðkomandi. Nemendur sem sækja um Erasmus+ styrk til starfsþjálfunar fá 660-770€ á mánuði og ferðastyrk 275-820€ (eftir fjarlægð frá áfangastað). Athugið að þessar upphæðir gilda fyrir þær umsóknir sem berast vegna frests 1. apríl 2019.