Geðheilbrigðisþjónusta fyrir nemendur

Nemendur geta sótt sér geðheilbrigðisþjónustu með mismunandi hætti innan Háskóla Íslands. Á árunum 2021-2023 átti sér stað mikil framför í geðheilbrigðisþjónustu í háskólanum þegar sálfræðingum var fjölgað úr einum í fjóra og fleiri hópúrræðum verið bætt við vegna sérstaks fjárstuðnings frá ríkinu. Vorið 2024 fækkaði sálfræðingum niður í tvo þegar tímabundna styrknum sleppti. Nú starfa þrír sálfræðingar við skólann í einu og hálfu stöðugildi.

Sálfræðiþjónusta Háskóla Íslands

Sálfræðiþjónusta Háskóli Íslands tilheyrir undir Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands (NSHÍ) og er staðsett á 3. hæð Háskólatorgs.

Sálfræðiþjónustan er gjaldfrjáls fyrir alla nemendur skólans en miðað er við eitt til þrjú viðtöl á misseri. Í sálfræðiþjónustunni er veitt ráðgjöf og stuðningur í einstaklingsviðtölum. Þjónustan felur ekki í sér ADHD greiningu. Boðið er upp á að viðtölin fari fram á íslensku, ensku, dönsku eða þýsku. Auk einstaklingsviðtala eru reglulega haldin námskeið um hugræna atferlismeðferð (HAM), sjálfstyrkingu, prófkvíða og fleira.

Starfsfólk

Hrafnkatla Agnarsdóttir, Katrín Sverrisdóttir og Sigrún Arnardóttir sinna sálfræðiþjónustu við Háskóla Íslands.

Hvernig bóka ég tíma?

Hægt er að bóka tíma með því að senda tölvupóst á netfangið: salfraedingar@hi.is

Hvað kostar þjónustan?

Þjónustan er ókeypis fyrir alla nemendur Háskóla Íslands.

Símanúmer: 525-4315
Staðsetning:

3. hæð Háskólatorgs

Sálfræðiráðgjöf háskólanema

Sálfræðiráðgjöf háskólanema veitir háskólanemum og börnum þeirra sálfræðiþjónustu, einstaklingsmeðferð og hópmeðferð. Þjónustuna, sem starfrækt er á vegum Sálfræðideildar, veita meistaranemar í klínískri sálfræði við Háskóla Íslands undir handleiðslu sérfræðings í klínískri sálfræði.

Sálfræðiráðgjöfin er staðsett á jarðhæð í suðurenda Nýja Garðs, Sæmundargötu 12, 102 Reykjavík. Þar fer fram greining og meðferð við ýmiss konar sálrænum vanda. Unnið hefur verið með málefni einstaklinga, para, fjölskyldna og hópa.

Markmið starfseminnar er tvíþætt. Annars vegar að þjálfa framhaldsnema í sálfræði í klínískum störfum og hins vegar að veita sálfræðiþjónustu fyrir háskólanema og börn þeirra.

Dæmi um sálfræðiráðgjöf sem þjónustan veitir:

  • að temja sér hjálplegt hugarfar og árangursríka hegðun.
  • að ná námsmarkmiðum og öðrum mikilvægum markmiðum.
  • að vinna að góðri geðheilsu og almennu heilbrigði.
  • að eiga við tilfinningavanda, svo sem kvíða, þunglyndi, reiði eða skömm.
  • að taka vel ígrundaðar og markvissar ákvarðanir.
  • að þjálfa sig í ákveðni og byggja upp hátt óvissu- og mótlætisþol.
  • að huga að eigin lífsstíl, endurskoða gildi sín og styrkja karakter sinn.
  • að bæta félagsleg samskipti, efla persónutengsl og fjölskyldubönd.

Í Sálfræðiráðgjöfinni er stuðst við viðurkenndar kenningar um sálfræðimeðferð og gagnreyndar aðferðir. Þar er veitt skammtímameðferð en ekki langtímameðferð. Sem þjálfunarstöð fyrir sálfræðinema er starfseminni ekki ætlað að fást við alvarlegustu sálmein, svo sem langvinna geðsjúkdóma eða eiturlyfjafíkn, en leitast er við að veita aðstoð og vísa þeim málum til viðeigandi meðferðar.

Starfsfólk

Sálfræðinemarnir veita þjónustuna undir handleiðslu sérfræðinga í klínískri sálfræði.

Hvernig kemst ég að?

  • Fullorðnir sækja um á öruggu svæði hér.
  • Foreldrar sækja um fyrir börnin sín á öruggu svæði hér.

Hvað kostar þjónustan?

Skjólstæðingar greiða 1.500 kr. fyrir hvert sálfræðiviðtal, sem miðast við 60 mínútur, það er 50 mínútna viðtal og 10 mínútur fyrir undirbúning og dagnótuskrif.

Símanúmer:525 4582
Staðsetning:

Nýi Garður, Sæmundargata 12, kjallari

Netfang:

salradgjof@hi.is

Sálrækt

Sálrækt er hópmeðferð fyrir háskólanemendur sem vilja leysa úr sálrænum vanda og bæta geðheilsu sína.

Þrír sálfræðingar og forstöðumaður leiðbeina í meðferðinni. Í framhaldinu verður haft samband og boðað til inntökuviðtals. Athugið að þátttökufjöldi er takmarkaður en þátttakendur útskrifast þegar þeir hafa náð markmiðum sínum og þá opnast pláss fyrir nýja þátttakendur. Viðtalstímar verða haldnir í Setbergi, húsi kennslunnar við HÍ. Fundað verður vikulega á þriðjudögum kl 14-15:30.

Nánari upplýsingar um SÁLRÆKT má finna á vef Sálfræðideildar.

Starfsfólk

Stjórn verkefnisins er undir dr. Gunnars Hrafns Birgissonar sérfræðings í klínískri sálfræði. Sálfræðingarnir Jóhannes Pálmi Harðarsson, Kristjana Þórarinsdóttir og Kristján Helgi Hjartarsson doktorsnemar í sálfræði starfa þar einnig.

Hvernig bóka ég tíma?

Áhugasamir geta sent póst á hopmedferd@hi.is með nafni og símanúmeri til að sækja um þátttöku.

Hvað kostar þjónustan?

Þjónustan er ókeypis fyrir nemendur Háskóla Íslands.

Staðsetning:

Setberg

Félagsráðgjöf háskólanema

Félagsráðgjöf háskólanema er gjaldfrjáls þjónusta þar sem nemendur í MA námi veita öðrum nemendum HÍ félagslega ráðgjöf. Sú þjónusta sem hægt er að nýta er til dæmis:

  • Fjölskylduráðgjöf
  • Fjármálaráðgjöf
  • Ráðgjöf um réttindi
  • Ráðgjöf vegna samþættingar náms og fjölskyldulífs
  • Samskiptaráðgjöf
  • Uppeldisleg ráðgjöf

Hægt er að sækja um þjónustuna með því að fylla út umsókn á: Félagsráðgjafardeild – HÍ (cognitoforms.com)

Einnig eru upplýsingar á instagram: nemendaradgjofhi

Staðsetning:

Aragata 9

Símanúmer:

525 5453