27. október, 2023

Skrásetningargjöld Háskóli Íslands ólögmæt

Háskóli Íslands hefur brotið lög. Við krefjumst þess að ofrukkun skrásetningargjalda verði leiðrétt tafarlaust. 

 

Samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema frá 5. október sl. hefur Háskóli Íslands byggt á ófullnægjandi forsendum við ákvörðun fjárhæðar skrásetningargjaldsins. Stúdentar geta því ekki fengið upplýsingar um hvað þeir eru að greiða fyrir.

 

Aðdragandi málsins

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur löngum dregið lögmæti skrásetningargjaldsins í efa, málið var fyrirferðamikið hjá Stúdentaráði síðasta starfsárs en upphaf þess má rekja allt til vorsins 2020 þegar háskólaráð ályktaði að fela rektor að leitast við að hækka skrásetningargjaldið í 104.000 kr. Þrátt fyrir að gjaldið hafi ekki verið hækkað í kjölfarið, hélt vinna Stúdentaráðs áfram. 

 

Í september 2020 krafði nemandi við HÍ og hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs, Jessý Jónsdóttir,  háskólaráð um endurgreiðslu fyrir þann hluta skrásetningargjaldsins sem húntaldi að lög heimili ekki að skólinn rukki fyrir. Skrásetningargjöld í opinbera háskóla eru þjónustugjöld sem verða að byggja á lögum og má að meginstefnu einungis innheimta fyrir þá þjónustu sem veitt er þeim sem greiðir gjaldið. Háskólaráð hafnaði kröfu nemandans og rökstuddi þá afstöðu með því að sundurliðun fjárhæða kostnaðarliða sem búi að baki skrásetningargjaldinu séu áætlaðar út frá raunútgjöldum ársins 2015. Málinu var fylgt eftir og í október 2022 komst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands hafi brotið rannsóknarreglu við ákvörðun skrásetningargjaldsins og ekki staðið rétt að útreikningum skrásetningargjaldsins. Þessi úrskurður staðfesti þann grun Stúdentaráðs að gjaldið geti ekki eingöngu talist skrásetningargjald heldur sé það betur skilgreint sem skólagjöld. Háskólaráð tók málið þá aftur fyrir en hafnaði kröfunni enn á ný, með vísan til nýrra útreikninga. Nú hefur áfrýjunarnefndin afdráttarlaust komist að því að tilteknir gjaldliðir standist ekki lög. 

 

Afstaða Stúdentaráðs

Úrskurður áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema í máli nr. 4/2022 frá 5. október 2023 felur í sér að úrskurður háskólaráðs frá 3. nóvember 2022, um höfnun á endurgreiðslu skrásetningargjalds til kæranda málsins, var felldur úr gildi. Úrskurðurinn er byggður á þeirri niðurstöðu áfrýjunarnefndar að ekki liggi nægjanlega traustir útreikningar eða kostnaðaráætlanir fyrir við ákvörðun skrásetningargjaldsins. Þar sem skrásetningargjöld við opinbera háskóla teljast til þjónustugjalda er nauðsynlegt að fjárhæða gjaldsins byggi á traustum útreikningum eða fullnægjandi áætlunum. Þetta hafi skort og því telst Háskóli Íslands hafa brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þann 26. október 2023 sendi Stúdentaráð frá sér erindi þar sem krafist var endurgreiðslu ólögmætra skrásetningargjalda allt aftur til ársins 2014. 

 

Stúdentar eiga ekki að fjármagna Háskólann

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur um árabil bent á afleiðingar þess að opinber háskólamenntun á Íslandi sé undirfjármögnuð og að afleiðingar þess bitni helst á stúdentum. Þykir okkur bæði sorglegt, ófaglegt og óásættanlegt að Háskóli Íslands seilist í vasa stúdenta til að afla fjár til að brúa það bil sem vanfjármögnun opinberu háskólanna leiðir af sér. Það á að vera á ábyrgð stjórnvalda að styrkja opinbera háskólamenntun, ekki stúdenta. 

 

Stúdentar eru almennt tekjulítill hópur sem stendur fjárhagslega höllum fæti. Okkur þykir óásættanlegt að verið sé að krefja stúdenta um ólöglegar og íþyngjandi greiðslur. Könnun Stúdentaráðs, sem lögð var fyrir nemendur í apríl síðastliðnum, sýna sláandi niðurstöður um fjárhagsstöðu stúdenta. Staðan er verulega slæm, námslán grípa ekki þau sem þurfa á þeim að halda og of margir stúdentar neyðast til að vinna með námi til að eiga möguleika á að ná endum saman. Í augum margra eru 75.000 kr ekki há upphæð en fyrir stúdenta skiptir hver króna máli, sérstaklega þegar hún hefur verið innheimt ólöglega og er innheimt árlega, svo fljótlega safnast þetta upp og getur haft verulega þýðingu fyrir fjárhag stúdents.

 

Oft ber Ísland sig saman við önnur Norðurlönd. Þegar kemur að stuðningi við opinbera háskólamenntun erum við eftirbátur þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við. Stuðningur við nemendur hér á landi er umtalsvert minni en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Forsenda samkeppnishæfni háskólamenntunar og samkeppnishæfni íslenskra stúdenta við opinbera háskóla gagnvart nemendum annarra Norðurlanda er raunverulegur og fullnægjandi stuðningur hins opinbera.

 

Stúdentaráð hefur krafist þess að Háskóli Íslands endurgreiði skrásetningargjöld sem hafa verið innheimt á ólöglegan hátt. Það gengur ekki að stúdentar séu látnir halda uppi fjármögnun opinberra háskóla. Við leggjum þunga áherslu á að grundvallarvandinn sem háskólastigið á Íslandi glímir við í dag sé alvarleg vanfjármögnun sem hefur valdið því að ráðist er í þessa ólögmætu gjaldtöku en á því bera stjórnvöld alla ábyrgð.

Deila

facebook icon
linkedin icon